Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stefán Hrafn biðst afsökunar á bréfinu

07.08.2021 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Landspitali.is
Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala, biðst afsökunar á bréfi sem hann sendi stjórnendum spítalans á miðvikudagskvöld. Í bréfinu var stjórnendum, sem eru á þriðja hundrað, ráðið frá því að svara símtölum fjölmiðla og beina fyrirspurnum til hans. Þá voru talin upp símanúmer fjölmiðla og fjölmiðlamenn kallaðir  „skrattakollar“.

Sjá nánar: Stjórnendur beðnir um að svara ekki fjölmiðlum

 „Ég biðst afsökunar á þessum tölvupósti og öllu í kringum þetta þetta er afleitt hjá mér, “ sagði Stefán Hrafn í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. 

Ritskoðun eða þöggun ekki ætlunin

Stefán segir að tilgangur póstsins hafi ekki verið að ritskoða eða þagga niður í sérfræðingum spítalans. Pósturinn hafi verið skrifaður í lok vinnudags og eftir stutt sumarfrí en Stefán er einn þeirra sem þurfti að snúa aftur til vinnu úr fríinu. 

 „Þetta var póstur sem skrifaður var í lok langs vinnudags, eftir mjög stutt sumarfrí, og hann var þreytulegur. Þetta snýst alls ekki um miðlæga svörun frá spítalanum. Spítalinn teflir alltaf fram þeim sérfræðingum sem beðið er um hverju sinni, eru lausir á vakt og til í spjall og annað slíkt. Við reynum að tefla forstjóra oftast fram ef um er að ræða stefnu og stjórnun spítalans eða fjármögnun en annars svara sérfræðingar á hverju sviði, alveg hindrunarlaust og milliliðalaust, “ sagði Stefán Hrafn.

„Fréttastýring eða ritskoðun tíðkast ekki á Landspítala“

Stefán Hrafn segir eðlilegt að fjölmiðlar taki allt sem þeir túlka sem einhvers konar þöggunartilburði, ritskoðun eða fréttastýringu óstinnt upp. Pósturinn hafi snúist um að fá fyrirspurnir fjölmiðla á miðlægan stað svo hægt væri að tryggja að öllum væri svarað. Um tíu fyrirspurnir fjölmiðla berast spítalanum á degi hverjum og ekki eru allir sérfræðingar lausir til svara hverju sinni, að sögn Stefáns Hrafns. Hann bætir við að fréttastýring eða ritskoðun á innihaldi viðtala við starfsfólk spítalans tíðkist ekki. Landspítalinn sé háskólasjúkrahús og vinnustaður fólks sem er annt um málfrelsi sitt og vinnubrögð. 

 

„Það er búið að hirta mig, þetta voru um þrjátíu eða fjörutíu fréttir í gær og í fyrradag í leiðurum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Þannig að ég er allavega búinn að fá þá hirtingu sem ég sennilega bara átti skilið og framleiddi sjálfur. Er það ekki yfirleitt þannig að holurnar sem við hrösum um eru þær sem við höfum grafið sjálf?“ sagði Stefán Hrafn í Vikulokunum.