Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Illa farnir fiskar í sjókvíaeldi

Eitthvað hefur farið úrskeiðis ef marka má myndir sem teknar voru í sjókvíaeldi á Vestfjörðum í apríl. Þetta er mat sviðsstjóra ferskvatnssviðs Hafrannsóknastofnunar. Hann segir mikilvægt að vel sé staðið að fiskeldi og eftirlit sé virkt. 

Framleiðsla á laxi í sjókvíaeldi skipar sífellt stærri sess í matvælaframleiðslu á Íslandi. Sjókvíaeldi hefur þrettánfaldast frá árinu tvö þúsund og fimmtán samkvæmt gögnum úr Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Sumir hafa þó áhyggjur af því hvernig staðið er að slíku laxeldi, meðal annars North Atlantic Salmon Fund, sem hefur beitt sér gegn auknu sjókvíaeldi við strendur landsins.

Veiga Grétarsdóttir kajakræðari tók myndir af sjókviaeldi í Dýrafirði og í Arnarfirði á Vestfjörðum í vor. Arnarlax og Arctic Fish eru þar með eldi. North Atlantic Salmon Fund sendi fréttastofunni myndefnið. Í samtali við fréttastofuna kvaðst Veiga með róðri umhverfis hálft Ísland vilja benda á hversu mikið rusl berst frá sjónum upp á land. Vernda þurfi hafið. Laxeldi sé bæði sjónmengun og umhverfismengun og ekki sé allt fagurt sem tengist eldinu.

Myndinar voru teknar seint í apríl. Gera má ráð fyrir að um fimm milljónir laxfiska hafi verið í sjókvíum í vestfirskum fjörðum á þessum tíma samkvæmt upplýsingum úr greininni. 

Fiskurinn getur skaðast af ýmsum orsökum, bæði fengið sjúkdóma eða orðið fyrir hnjaski sem leiðir til alvarlegri áverka í kjölfarið. Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatnssviðs hjá Hafrannsóknastofnun  segir Hafrannsóknastofnun ekki heyra mikið um atvik sem þessi í íslensku fiskeldi.  
„ Menn náttúrulega þekkja það að þetta getur gerst og eldismenn þeir reyna gjarnan að passa upp á sína hjörð og hugsa vel um hana og flest af þessum eldisfyrirtækjum, alla vega stærri eldisfyrirtækjunum, þau eru með vottanir frá vottunarstofum. Menn þurfa að vera árvökulir fyrir því að hugsa um dýravelferð."

Þessir fiskar hafi sennilega slasast í sjókvíunum. Fiskarnir étist í raun upp í köldum sjó eftir að þeir verða fyrir hnjaski. Sárin ná ekki að gróa. 
Þekkt er í greininni að sár koma á fiska af ýmsum ástæðum. Viðmælandi úr fiskeldisgeiranum likir þessu við þegar kind er meidd eftir girðingu og bóndinn finnur hana ekki strax. Að öllu jöfnu séu fiskar sem þessir teknir út við daglegt eftirlit. Enginn fiskur eigi að líða. Matvælastofnun á að sjá um eftirlit með dýrum og dýravelferð. Guðni Guðbergsson kveðst ekki vita annað en að þeir sinni því af kostgæfni.

„En vissulega geta alltaf svona undantekningardæmi komið upp." „Þessar myndir sem þú hefur séð, er þetta algjör undantekning eða má gera ráð fyrir að það séu alltaf einhverjir fiskar í hverri hjörð eins og þú segir sem að verða svona illa úti?" „ Ég held að það sé alveg undantekning að það verði fiskar sem líta svona illa út. Því að þá hefur eitthvað klikkað einhvers staðar. Þarna hefur eitthvað farið úrskeiðis." Guðni segir um matarframleiðslu að ræða og fiskeldisfyrirtækin eigi allt undir því að sú vara sem verið sé að búa til standist gæðakröfur. Ef svo sé ekki fari illa.

Talsmaður Arctic Fish segir í yfirlýsingu til fréttastofu að ef myndirnar séu komnar úr kvíum fyrirtækisins, sem hann hafi efasemdir um, þá séu særðu fiskarnir alger undantekning og lýsi með engum hætti ástandi í eldiskvíum fyrirtækisins. Forstjóri Arnarlax tekur í sama streng og segir að sjúkum fiskum sé fargað samkvæmt leiðbeiningum MAST, en almennt séu 99% fiska fyrirtækisins án útlitsgalla. Hvorugur þáði boð fréttastofu um viðtal.

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV