Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Öryggi sjúklinga og starfsfólks ekki tryggt vegna álags

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sólveig Gylfadóttir, hjúkrunarfræðingur á smitsjúkdómadeild Landspítala segir nýleg dæmi um að fólk hafi hætt vegna álags og manneklu. Sjálf hlýddi hún kallinu og mætti á vaktina þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi. Hún segir að oft á tíðum sé öryggi sjúklinga og starfsfólks ekki tryggt.

Sólveig kallar eftir harðari takmörkunum innanlands. „200 manna samkomubann og einn metri, mér finnst það bara ekkert í takt við það sem við erum að kljást við á spítalanum sko. Við erum við það að springa, fólk er bara búið á því. Ég hefði viljað sjá eitthvað meira. Það eru tilfelli þar sem fólk er að hætta út af álagi, getur ekki meira.“

Í þessari bylgju? „Já. En það er fólk sem er búið að vera lengi.“ Og sinna þá sjúklingum í öðrum covid-bylgjunum.

Sinnir covid-vöktum í fæðingarorlofi

Sólveig sinnir covid-sjúklingum á smitsjúkdómadeild Landspítalans og hefur staðið vaktina frá því að faraldurinn hófst. Hún hefur reyndar verið á vakt annars staðar undanfarna fjóra mánuði. Hún er í fæðingarorlofi en stökk til þegar kallið kom. „Ég er sem sagt með fjögurra mánaða gamlan son sem er ennþá á brjósti, ég pumpa mig á milli þess sem ég sinni sjúklingum.“ Hún segist ætla að astoða á spítalanum eins og hún getur án þess að fæðingarorlofsgreiðslurnar skerðist.

Sólveig segir jafnframt að starfsfólk þurfi umbun, bónus eða launahækkun til að það hafi hvata til að mæta við þessar aðstæður. „Við erum á hlaupum, ég hljóp mikið í gærkvöldi, þá var mikið að gera. Við erum sveitt, stundum sjáum við ekkert í gegnum hlífðargleraugun, það er bara allt í móðu. Þá þurfum við að kalla á einhvern sem sér betur. Þetta er mjög erfitt, erfiðar vinnuaðstæður.“

Er öryggi sjúklinga tryggt? „Nei. Ég myndi ekki segja það. Og ekki okkar heldur.“