Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Flestir smitast í gleðskap

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Langflest smit sem nú greinast tengjast gleðskap, segir yfirlæknir covid-göngudeildarinnar. Hundrað og sjö greindust smituð í gær. Þá fjölgaði um rúmlega þrjú hundruð manns í sóttkví. 

Smitin í gær voru um þriðjungi færri en í fyrradag eða hundrað og sjö talsins. Eitt smit greindist á landamærum. Sjötíu og einn var fullbólusettur og því þriðjungur smitaðra óbólusettur. Hlutfall þeirra sem eru utan sóttkvíar hækkaði frá deginum áður og voru sextíu og þrjú prósent smitaðra ekki í sóttkví við greiningu í gær. Alls er fjórtán hundruð tuttugu og einn smitaður og í einangrun.

Þá liggur tuttugu og einn á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu. Tvö þúsund þrjú hundruð og fimmtán manns eru í sóttkví. Það er töluverð fjölgun milli daga eða um rúmlega þrjú hundruð manns. 

Enn ber lítið á smitum sem rakin eru beint til skemmtanahalds um verslunarmannahelgina. Hópur smitaðra er á öllum aldri. 

„Um 250 börn til að mynda. Við vitum það að börn hafa smitast síður og veikjast síður en það er samt þetta mikill fjöldi barna. Þó börn smiti kannski síður, þá eru börn að smita kannski afa og ömmu. Það hefur verið mjög áberandi þessi hópur ungs og hrausts fólks sem vafalítið hefur smitast í tengslum við gleðskap. Ég held að það sé mjög stór áhættuþáttur en síðan dreifist þetta bara til annarra í þeirra fjölskyldu eins og gengur,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir covid-göngudeildar Landspítalans.

Runólfur segir að mikið hafi verið gert til að gera spítalanum kleift að takast á við faraldurinn.

„En við verðum líka að sporna við dreifingu smits. Þar verðum við að reiða okkur á almenning. Fólk sem tilheyrir viðkvæmum hópum, er með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma, aldraðir, jafnvel þótt það sé bólusett, ætti að halda sig alveg til hlés,“ seigr Runólfur.