Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Verðum að tryggja reglu í lífi barna og ungmenna‟

05.08.2021 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: UMFÍ - Aðsend mynd
Fulltrúar Ungmennafélags Íslands, UMFÍ, funduðu með ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær um næstu skref í baráttunni við kórónuveiruna. Var þetta níundi fundur ráðherra og hagsmunaaðila í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Á fundinum voru jafnframt fulltrúar úr stjórn Íþrótta- og Ólýmpiusambands Íslands auk fulltrúa listalífsins.

Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að fundarmenn hafi sammælst um að helsta markmiðið fyrir komandi haust sé að lágmarka röskun á skólastarfi með áherslu á smitvarnir í stað takmarkana. Var þetta fyrst og fremst stöðufundur en ráðherrar ríkisstjórnarinnar ræða nú við hina ýmsu fulltrúa samfélagsins.  

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, telur mikilvægt að börn og ungmenni geti stundað íþróttir og sótt aðrar tómstundir. Hann segir ljóst að ekki sé hægt að opna fyrir allt í samfélaginu, útbreiðsla kórónuveirunnar sé of hröð til þess. Hann bætir við að tryggja verði reglu í lífi barna og ungmenna því skipulagt starf létti á í samfélaginu. Þá leggur hann áherslu á mikilvægi bólusetninga til þess að þetta náist. 

„Rútína í lífi barna og ungmenna léttir á öllu öðru í samfélaginu en ég hef minni áhyggjur af okkur fullorðna fólkinu. Til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar verðum við að greina helstu smitleiðirnar og vera samstíga í því að að stöðva útbreiðsluna. Það er samfélaginu til góða,‟ segir Haukur.