Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Staðan á Landspítala „íslenskum yfirvöldum til skammar“

COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Félag sjúkrahúslækna lýsir þungum áhyggum af skorti á mannskap og legurýmum á Landspítala. Félagið segir stöðuna vera „íslenskum yfirvöldum til skammar“ og kallar eftir endurbótum.

„Þetta ástand með þennan viðvarandi skort á legurýmum, þetta er ekkert sem er að koma upp akkúrat núna. Þetta sýnir bara hvað þarf í raun lítið til að setja starfsemi spítalans úr skorðum“ segir Theodór Skúli Sigurðsson formaður félagsins í samtali við fréttastofu.

„Það þarf ekki nema örfáa sjúklinga og þá eru gjörgæslurýmin og legurýmin uppurin,“ segir Theodór. „Þá erum við komin í þá stöðu að þurfa að fresta aðgerðum og eiga erfitt með að sinna alvarlega veikum sjúklingum.“

Fimmtán sjúklingar í tíu gjörgæslurýmum

„Eins og staðan er núna erum við með tólf sjúklinga í tíu gjörgæsluplássum. Við höfum farið mest upp í fimmtán sjúklinga núna síðustu vikuna,“ segir Theodór. Að sögn félagsins er heildarfjöldi rýma á Landspítala með því lægsta sem þekkist í Evrópu.

„Sama hvort um ræðir stórslys, COVID-19 eða annað, höfum við aldrei svigrúm til að vera viðbúin fyrir því sem koma skal,“ segir Theodór.

Vilja sjá stjórnvöld standa við fyrirheit um fjármagn til heilbrigðiskerfisins

„Það sem við myndum vilja sjá eru stjórnvöld sem styðja við bakið á Landspítalanum. Og Landspítala sem stendur við bakið á starfsfólki sínu og sjúklingum sem raunverulega þurfa á þjónustunni að halda,“ segir Theodór. Hann segir starfsfólk Landspítala ekki hafa orðið vart við auknar fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda.

 Spítalinn rekinn með næstum 100% nýtingu síðustu 10 árin

„Spítalinn hefur verið rekinn meira og minna með 100% nýtingu síðustu tíu árin vegna skorts á starfsfólki,“ segir Theodór.

„Stjórnendur Landspítalans þurfa að finna varanlega lausn á krónískum skorti legurýma, en þar ætti að vera forgangsatriði að ná legurýmanýtingu niður fyrir 90% með öllum tiltækum ráðum í samræmi við alþjóðleg viðmið um nýtingu legurýma,“ segir í yfirlýsingu félagsins.