Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kemur til greina að herða reglur á landamærum

05.08.2021 - 12:04
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisráðsfundur hófst klukkan ellefu á Bessastöðum í dag. Í ráðinu sitja ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forseti Íslands og tilgangur fundarins í dag var að staðfesta með formlegum hætti lög og ákvarðanir sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi.

Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, náði tali af Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún var á leið inn á reglubundinn ríkisráðsfund á Bessastöðum í morgun. 

Forsætisráðherra segir koma til greina að byrja að skima á ný alla sem koma til landsins, jafnt bólusetta sem óbólusetta. Ríkisstjórnin liggi nú yfir framhaldi sóttvarnaaðgerða.

Mikið hefur verið um fundahöld hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um næstu skref að undanförnu. Þeir hafa átt í samtali við sérfræðinga á sviði heilbrigðisvísinda og faraldursfræði.  En einnig við fólk hvaðanæva að úr samfélaginu, meðal annars fulltrúa launafólks og atvinnurekenda, og úr skólakerfinu og menningargeiranum.