Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hefur annast munaðarlausa hænu á Akureyri í þrjú ár

05.08.2021 - 15:35
Mynd: Óðinn Svan / RÚV
Steinar Sigurðsson, sem býr við Aðalstræti á Akureyri, hefur undanfarin þrjú ár fóstrað hænu sem hefur komið sér fyrir í stóru tré í garðinum hjá honum. Hann hefur margreynt að komast að uppruna hænunnar en án árangurs.

Orðin hálfgert gæludýr

Hænan birtist fyrst fyrir utan húsið hjá Steinari fyrir þremur árum og hefur frá þeim tíma verið hálfgert gæludýr fjölskyldunnar. „Hún byrjaði bara að vappa hérna í kringum húsið, svo leiðir þetta hvert af öðru. Svo fer maður að gefa henni.“ segir Steinar. 

Sást á vappi í kirkjugarðinum

Til að byrja með var hænan nokkuð stygg og vildi lítið af Steinari vita en það hefur breyst og nú getur hann oft gefið henni fóður úr lófanum. „Við náttúrlega bara sjáum um hana og förum á hverjum degi og gefum henni að borða. Hún er hérna í görðunum í kring og ég frétti af henni upp í kirkjugarði einu sinni þannig að hún er að spóka sig um hérna. En á veturna þá er hún alveg gjörsamlega kjur í einu tré, fer bara niður til að borða og upp aftur.“

Enginn kannast við hænuna

Steinar hefur lengi reynt að finna út úr því hvaðan hænan kemur en án árangurs. „Við erum búin að senda á Facebook-grúppur hérna í innbænum og það skilar engum árangri. Eins höfum við rætt við fólk sem var með hænur hérna, eins á Eyrinni en það kannast enginn við þetta.“  

„Þetta er ekki heimskingi

Steinar segir að þetta geti ekki gengið svona mikið lengur, hænan verði að fá að komast í sveit til að umgangast aðrar hænur. „Við erum búin að fá heimili fyrir hana, það heitir Grjótgarður en nú er bara vandamálið að ná henni. Oft er talað um að hænur séu heimskar en þetta er ekki heimskingi, það er alveg ljóst.“

„Þetta er pínu vesen, sko“

Þrátt fyrir ánægjulega sambúð segist Steinar ekki reikna með að eiga eftir að sakna hænunnar. „Þetta er pínu vesen sko, hún kemur hérna og bankar á gluggana hjá okkur og skítur líka og það er ekkert skemmtilegt. En vonandi mun hún bara eignast eðlilegt líf, verpa og njóta lífsins.“ 

Þið hafið ekkert fundið gott nafn á hana?

„Nei ekki þannig sko, þetta er ekki komið svo langt. Hún er bara kölluð hænan hérna í Innbænum. Ein af Innbæjarhænunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Nafnlausa hænan í Innbænum