Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

BHM: Framtíð úrræða stjórnvalda þarf að vera skýr

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bandalag háskólamanna (BHM) hvetja stjórnvöld til að finna jafnvægi milli lýðheilsulegra sjónarmiða, efnahagslegra sjónarmiða og þess að „lifa með veirunni“. Mikilvægt sé að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um hvert sé markmið og framtíð þeirra úrræða sem gripið hefur verið til.

Þetta kemur fram í minnisblaði bandalagsins til ráðherranefndar um samræmingu mála varðandi viðbrögð við faraldrinum. Stjórnvöld eru hvött til að framlengja ráðningarstyrki, hlutabótaleið, ráðningarstyrki og fleiri úrræði.

Bjóða þurfi atvinnuleitendum upp á símenntun í meira mæli en verið hefur og tryggja að bætur skerðist ekki vegna þess.

Sömuleiðis álítur BHM að greiða beri framlínustarfsfólki í opinberri þjónustu launauppbót eða álagsgreiðslur vegna þess mikla og viðvarandi álags sem það hefur búið við.

Móta þurfi atvinnustefnu sem byggi á því að virkja menntun og hugvit. Eins beri að móta sértæka stefnu til stuðnings við háskólamenntað fólk. 

BHM tók minnisblaðið saman eftir fund ráðherranefndarinnar með forystu samtaka launafólks þriðjudaginn 3. ágúst og lýsir sig tilbúið til frekara samráðs um efnisatriði þess.