„Terfismi á ekkert skylt við femínisma“

Mynd: Ugla Stefanía / Ugla Stefanía

„Terfismi á ekkert skylt við femínisma“

04.08.2021 - 12:30

Höfundar

Barátta fyrir því að trans konur fái ekki aðgang að ákveðnum rýmum, til dæmis í sundlaugum og í kvennaíþróttum, er dæmi um svokallaðan terfisma, segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir. Hún stýrir pallborðsumræðum um terfisma á Þjóðminjasafninu á morgun.

Hinsegin dagar voru settir í gær á árlegri opnunarhátíð í Gamla bíói. Hátíðin verður þó ekki með hefðbundnu sniði í ár því fjarlægðar- og samkomutakmarkanir gera það að verkum að færri geta sótt ákveðna viðburði en áður og gleðigangan fer ekki fram. Það verður þó nóg um að vera og dagskráin er þétt alla vikuna.

Á morgun, fimmtudag klukkan ellefu, verða pallborðsumræður á Þjóðminjasafninu sem aktífistinn Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir stýrir. Þar ræða þau Páll Winkel fangelsismálastjóri, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, Ragnhildur Skúladóttir frá Íþróttasambandi Íslands og Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna '78 um anti-trans áróður, eða terfisma, og hvernig femínísk samtök og þjónustuaðilar geta spornað gegn slíkum áróðri í sameiningu. Ugla Stefanía ræddi um hugtakið og viðburðinn við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Nátengt aldagamalli hómófóbíu

„Terfismi snýst um útilokandi hugmyndafræði gegn trans fólki. Það er kannski sagt að þetta sé einhvers konar femínismi en í raun, út frá femíniskum gildum, þá á þetta ekkert skylt við femínisma,“ segir Ugla um hugtakið. Hugmyndafræðin eigi rætur að rekja til lítilla hópa innan femínistahreyfingarinnar sem berjast gegn trans fólki og réttindum þeirra.

Ugla segir að trans konur séu helsta skotmark þessarar hugmyndafræði en hún beinist í raun að öllu trans fólki. „Þetta eru þessar týpísku anti-trans umræður sem við verðum kannski vör við í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, þar sem verið er að segja að trans konur eigi ekki að hafa aðgang að ákveðnum rýmum eða kvennaíþróttum eða slíkt,“ segir Ugla Stefanía. Hugmyndafræðin sé gegnsýrð hræðsluáróðri og snúist um að ala á ótta. „Þetta er í raun tengt þessari aldagömlu hómófóbíu þar sem verið er að reyna að ala á ótta gagnvart hinsegin fólki. Fyrir mér er þetta bara endurnýting á nákvæmlega því sem við höfum verið að berjast gegn í marga áratugi.“

Andsvar við auknum sýnileika og réttindum minnihlutahópa

Ugla telur að viðspyrna sem þessi, við því að minnihlutahópar hljóti réttindi, haldist í hendur við aukinn sýnileika þeirra og vægi í samfélaginu. „Þá eru á sama tíma þessir öfgahópar að rísa upp og verða háværari,“ segir hún. „Ég held að fjölmiðlaumhverfið ýti undir þessa pólaríseringu sem við sjáum, þessa öfga. Það er alltaf verið að fjalla um þessi öfgafullu viðhorf í fjölmiðlum og það ýtir undir að fleiri og fleiri tileinka sér viðhorf eða trúa þessum viðhorfum. Þess vegna held ég að fjölmiðlar spili oft stórt hlutverk í að ýta undir áróður.“

Mikilvægt að allir hafi aðgang óháð kyni

Á Íslandi er terfisminn ekki eins mikið vandamál og víða annars staðar samkvæmt Uglu Stefaníu. Hún segir að stórt skref hafi verið stigið árið 2019 þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt, sem Ugla lýsir sem risastóru skrefi í lagalegri baráttu trans fólks. Viðburðurinn snýst um að grípa inn í áður en Ísland kemst á alvarlegt stig. „Við erum í raun ekki komin á svipaðan stað og á Bretlandi, þar sem ég bý að hluta til, þar sem fjölmiðlaumræða á samfélagsmiðlum er oft mjög fjandsamleg og ljót,“ segir Ugla. „Í mínum huga erum við að safna saman fólki úr mismunandi stofnunum og samtökum sem tengjast trans fólki og þeirra aðgengi að íþróttum, kvennarýmum og fangelsum eða öðrum rýmum sem rifist er um,“ segir hún. Mikilvægt sé að tala um málin af skynsemi og hugsa þau út frá fjölbreytileika, sjá til þess að allir geti nýtt sér þjónustu, keppt í íþróttum og gert það sem þeim hugnast, óháð kyni.

Trans fólk rekst á veggi og er neitað um þjónustu á Íslandi

Ugla Stefanía segir að Ísland standi framarlega þegar kemur að samfélagslegri viðurkenningu og að fólk sé almennt opið fyrir fjölbreytileikanum. „En við erum enn að rekast á veggi og trans fólk er enn að upplifa þessa fordóma sem trans fólk upplifir í samfélaginu,“ segir hún. Trans fólki sé neitað um þjónustu hér á landi og þau lendi í mismunun. „Þó við séum komin með ákveðin lagaleg réttindi og séum komin á ákveðinn stað í samfélagslegri meðvitund þá er ýmislegt sem við þurfum að minna á og fólk þarf að tileinka sér betur. Að virða trans fólk og þeirra kynvitund,“ segir Ugla.

Markmiðið með viðburðinum er að fá fólk frá ólíkum stofnunum til að ræða saman og sýna hvernig hægt sé að gera hlutina rétt. „Sjá að allir eru af vilja gerðir til að sjá til að allir geti fengið það aðgengi sem þeir þurfa á að halda.“

Rætt var við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hér má nálgast upplýsingar um viðburðinn.

Tengdar fréttir

Innlent

Hinsegin dagar glæða borgina lífi þessa vikuna