Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stóraukin umferð einkaþotna af stærri gerðinni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í júlí stórjókst umferð einkaþotna um Reykjavíkurflugvöll og var talsvert meiri en fyrir kórónuveirufaraldurinn. Vélarnar eru bæði stærri og þyngri en áður og sumir íbúar í grennd við völlinn eru komnir með nóg af hávaðanum. 

Þyngri og stærri en í júlí 2019

Umferðin jókst verulega í júlí. Stefán Smári Kristinsson, rekstrarstjóri ACE FBO, fyrirtækis sem þjónustar einkaflugvélar sem lenda á Reykjavíkurflugvelli, var einmitt að taka saman tölurnar fyrir júlímánuð þegar fréttastofa náði af honum tali. „Það var alveg gríðarleg aukning hjá okkur, alveg 50% aukning frá því sem var í júlí 2019.“ Vélarnar eru ekki endilega fleiri en þá en þær eru mun stærri og þyngri.  „Við mælum þetta alltaf í maximum take off weight, eins og gerist í fluginu,“ segir Stefán Smári.

Verið á barmi þess að vísa vélum frá

Fyrirtækið afgreiðir að sögn Stefáns á bilinu þrjár til fjórar vélar á dag, vélarnar sem lenda eru þó fleiri enda fleiri fyrirtæki sem þjónusta einkaþotur sem lenda á vellinum. En ræður Reykjavíkurflugvöllur við þetta? „Það er voða lítið sem má gera eins og staðan er núna, en hefði auðvitað verið gott að geta malbikað stærri hluta af því sem er í boði, það hefur alveg verið nálægt því að þurfa að vísa vélum frá.“  

Víðar eru einkaþotur áberandi, mbl.is greindi frá því í byrjun mánaðarins að krökkt væri af þeim á Akureyrarflugvelli, flestar líklega í eigu laxveiðimanna. 

Ríkir ferðamenn sem vilja næði

Oftast eru um borð í vélunum ríkir ferðamenn, Stefán Smári segir þá vilja komast á afskekktan og öruggan stað þar sem auðvelt sé að forðast mannmergð. Og kannski eru þeir ríkari en áður, að minnsta kosti á veglegri þotum. Stjórnvöld hafa oft talað fyrir því að fá hingað efnameiri ferðamenn sem skilja eftir meiri gjaldeyri.

Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Einkaflugvélar á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2020.

Telur að áhuginn haldist þrátt fyrir fjórðu bylgjuna

Stefán Smári segir óljóst hvaða áhrif fjórða bylgjan hafi á aðsóknina nú, þegar Ísland dekkist á Evrópukortinu og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur varað við ferðum hingað. Takmarkanir á landamærunum ráði líklega mestu. „Ég held ekkert endilega að áhuginn breytist, það væru helst fleiri takmarkanir á landamærunum sem myndu hafa áhrif. Ég held að það geti alveg haldið áfram umferðin hérna ef fólk má koma til landsins.“ 

Segir ekki hægt að tala saman fyrir flugvélagný

Undanfarin ár hafa heilu hverfin risið við flugvöllinn og íbúar þar eru ekki allir himinlifandi með aukna umferð, sama gildir raunar um íbúa í miðbænum. Illugi Jökulsson,  einn þeirra, ræddi ástandið á Facebook-síðu sinni, sérstaklega með tilliti til einkaþotnanna, og sagði að í miðbænum heyrðist oft ekki mannsins mál langtímum saman fyrir hávaða í þotunum. Margir tóku undir með honum. Stefán segir einfaldlega viðbúið að fólk sem býr við hliðina á flugvelli heyri í flugvélum en ályktar að heilt yfir trufli flugið nágranna vallarins minna en umferðarniðurinn þá sem búa við Miklubraut. Það komi ákveðnir álagstoppar, við flugtak og lendingu en inn á milli sé rólegt. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV