Þyngri og stærri en í júlí 2019
Umferðin jókst verulega í júlí. Stefán Smári Kristinsson, rekstrarstjóri ACE FBO, fyrirtækis sem þjónustar einkaflugvélar sem lenda á Reykjavíkurflugvelli, var einmitt að taka saman tölurnar fyrir júlímánuð þegar fréttastofa náði af honum tali. „Það var alveg gríðarleg aukning hjá okkur, alveg 50% aukning frá því sem var í júlí 2019.“ Vélarnar eru ekki endilega fleiri en þá en þær eru mun stærri og þyngri. „Við mælum þetta alltaf í maximum take off weight, eins og gerist í fluginu,“ segir Stefán Smári.
Verið á barmi þess að vísa vélum frá
Fyrirtækið afgreiðir að sögn Stefáns á bilinu þrjár til fjórar vélar á dag, vélarnar sem lenda eru þó fleiri enda fleiri fyrirtæki sem þjónusta einkaþotur sem lenda á vellinum. En ræður Reykjavíkurflugvöllur við þetta? „Það er voða lítið sem má gera eins og staðan er núna, en hefði auðvitað verið gott að geta malbikað stærri hluta af því sem er í boði, það hefur alveg verið nálægt því að þurfa að vísa vélum frá.“
Víðar eru einkaþotur áberandi, mbl.is greindi frá því í byrjun mánaðarins að krökkt væri af þeim á Akureyrarflugvelli, flestar líklega í eigu laxveiðimanna.
Ríkir ferðamenn sem vilja næði
Oftast eru um borð í vélunum ríkir ferðamenn, Stefán Smári segir þá vilja komast á afskekktan og öruggan stað þar sem auðvelt sé að forðast mannmergð. Og kannski eru þeir ríkari en áður, að minnsta kosti á veglegri þotum. Stjórnvöld hafa oft talað fyrir því að fá hingað efnameiri ferðamenn sem skilja eftir meiri gjaldeyri.