Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Smitum meðal óbólusettra Íslendinga fjölgar

Mynd með færslu
Library image from early June. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Hlutfall óbólusettra sem greinast smitaðir af COVID-19 á Íslandi fer hækkandi og hefur verið tæpur helmingur síðustu tvo daga. Rúmlega fjögur prósent einkennasýna reynast jákvæð. Í gær greindust 116 smit innanlands, þar af voru 43 óbólusettir. Nýgengi innanlandssmita er nú um 400.

Hlutfall þeirra sem greinast og eru óbólusettir hefur hækkað síðustu tvo daga. Í fyrradag greindust 107 smit, þar af voru 45 óbólusettir, tæpur helmingur, og af þeim voru 23 börn. Hlutfall óbólusettra var þannig örlítið lægra í gær. Síðustu tvær vikur, frá 20. júlí, hafa 413 óbólusettir greinst með delta-afbrigði veirunnar á Íslandi. Delta, sem er óðum að ná yfirhöndinni um alla Evrópu, er mun meira smitandi, veldur alvarlegri veikindum og fleiri dauðsföllum hjá óbólusettum einstaklingum. Erlendis er hlutfall þeirra sem leggjast inn á spítala margfalt hærra meðal óbólusettra og sums staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, eru það einungis óbólusettir sem leggjast inn á gjörgæslu. 

Í gær voru tekin 3.857 sýni, öllu fleiri en á mánudag, á frídegi verslunarmanna, þegar sýnin voru 3.152 talsins. 4,27 prósent þeirra sem komu í einkennasýnatöku greindust með covid, það er svipað hlutfall og síðustu daga. Smit um verslunarmannahelgina koma ekki inn fyrr en í fyrsta lagi á morgun. 

Langflest smitin hjá ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu

Nú eru 1.330 manns í einangrun á Íslandi með COVID-19 og tæplega 2.000 manns í sóttkví. Langflest smitin eru á höfuðborgarsvæðinu og í aldurshópnum 18-29 ára. Næststærsti sjúklingahópurinn er á fertugsaldri. 223 börn, 17 ára og yngri, eru í einangrun með covid. Tólf  þeirra eru yngri en eins árs en flest eru þau á aldrinum 6-12 ára. 

Nýgengi innanlandssmita nálgast nú 400, en það var 288 þegar mest var í október í fyrra.