Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metsala áfengis á einni viku

04.08.2021 - 07:52
Mynd með færslu
Mest jókst salan á rauðvini, eða um 49 prósent. Mynd: Ragnar V - RÚV
Aldrei hefur selst jafn mikið magn áfengis í Vínbúðunum á einni viku eins og í síðustu viku, í aðdraganda verslunarmannahelgar. Heildarsalan í júlí var líka met fyrir einn mánuð fyrr og síðar.

Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag. Vikan fyrir verslunarmannahelgina er jafna ein stærsta söluvikan í Vínbúðunum á ársgrundvelli en síðasta vika sló þó öll met. Þá voru seldir 814 þúsund lítrar og nemur svarar það til aukningar sem nemur 3,6% frá fyrra ári, en þá seldust 786 þúsund lítrar í vikunni fyrir verslunarmannahelgi. Samkvæmt ÁTVR hefur aldrei selst jafn mikið á einni viku, hvorki fyrr né síðar.

Júlímánuður sá fyrsti með 3 milljónir lítra

Þegar heildarsalan í júlímánuði síðastliðnum er skoðuð þá eykst hún líka milli ára, eða um 1,5% frá sama mánuði í fyrra. Alls seldust 3.023 þúsund lítra í Vínbúðunum og er það met því aldrei áður hefur sala innan eins mánaðar náð þremur milljónum lítra. Helgast það ekki síst af því að stærstu söludagarnir, fyrir verslunarmannahelgi sem og fyrstu helgina í júlí, raðast í júlímánuð, að því er segir í svari Kristjáns M. Ólafssonar, framkvæmdastjóra sölu og þjónustu Vínbúðanna, við fyrirspurn Morgunblaðsins.