Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ísland í næst-hæsta hættuflokk vegna COVID-19

04.08.2021 - 01:38
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bandaríkjamenn eru varaðir við því að ferðast til Íslands og óbólusettir hvattir til að ferðast ekki hingað að nauðsynjalausu, vegna mikillar fjölgunar kórónaveirusmita hér á landi að undanförnu.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, færði Ísland úr 1. hættustigi vegna COVID-19 (lítil hætta á smiti) í þriðja og næst-hæsta hættustig (mikil hætta) og breytti ferðaráðleggingum sínum til samræmis við það. Fólk sem hyggur á Íslandsferð er hvatt til að fara ekki hingað nema fullbólusett, þar sem mikil hætta sé á að smitast og smita aðra af þeim afbrigðum kórónaveirunnar sem hér geisa.

Þá eru Íslandsfarar hvattir til grímunotkunar á meðan á Íslandsdvölinni stendur, minntir á að virða tveggja metra regluna og að fara í COVID-19 próf þremur til fimm dögum eftir heimkomuna.

Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennastir í hópi erlends ferðafólks sem hingað hefur streymt í sumar.