Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvítrússnesk hlaupakona fær hæli í Póllandi

04.08.2021 - 04:45
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Hvítrússneska hlaupakonan Krystina Tsimanouskaya flaug í nótt frá Tókíó til Vínarborgar og heldur þaðan áfram til Póllands, þar sem hún hefur fengið pólitískt hæli. Tsimanouskaya, sem keppti í 4 X 400 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum og átti að hlaupa 200 metrana líka, neitaði að hlýða fyrirmælum um að snúa aftur til Hvíta Rússlands. Þess í stað leitaði hún hælis í pólska sendiráðinu í Tókíó, af ótta við harða refsingu þegar heim kæmi.

Spretthlauparinn var á meðal þúsunda sem undirrituðu opið bréf þar sem stjórnvöld í Minsk voru gagnrýnd, og hún leyfði sér einnig að gagnrýna Ólympíunenfd landsins fyrir slæleg og ófagmannleg vinnubrögð.

Meðal þess sem hún gagnrýndi var að hún og fleiri hefðu verið skikkaðar til að hlaupa í 400 metra boðhlaupinu að þeim fornspurðum, í stað þeirra sem áttu að vera í boðhlaupssveitinni. Ástæðan var sú að ólympíunefndin hafði vanrækt að senda boðhlauparana í nógu mörg lyfjapróf.

Tsimanouskaya segir að henni hafi verið tilkynnt á sunnudag að hún fengi ekki að keppa í sinni grein, 200 metrunum, heldur yrði að fara heim, þar sem hennar biði refsing fyrir óvirðingu gagnvart ólympíunefndinni og stjórnvöldum. Var henni ekið á flugvöllinn, gegn vilja sínum, en hún leitaði þá til flugvallarlögreglunnar og síðan til pólska sendiráðsins, sem tók henni fagnandi.

Í yfirlýsingu hvítrússnesku ólympíunefndarinnar segir að þjálfarar liðsins hafi ákveðið að draga Tsimanouskayu úr keppni á Ólympíuleikunum að læknisráði, vegna „tilfinningalegs og sálræns ástands“ hennar.“

Upphaflega stóð til að Tsimanouskaya flygi bent til Varsjár frá Tókíó, en á síðustu stundu var ákveðið að hún flygi til Vínar. Marcin Przydacz, utanríkisráðherra Póllands, tilkynnti á Twitter að Tsimanouskaja fengi pólitískt hæli í Póllandi og geti ræktað íþróttaferil sinn þar, kjósi hún svo. Eiginmaður hennar, Arsenij Zdanevitsj, hefur einnig flúið Hvíta Rússland og er kominn til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu.