Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ekki hægt að leggja á framlínufólk annan eins vetur

Mynd: RÚV / RÚV
Forseti ASÍ segir brýnt að tryggja afkomu fólks sem missir tekjur vegna kórónuveirufaraldursins og huga að öryggi og velferð framlínufólks. Ekki sé hægt að leggja á það annan eins vetur og í fyrra.

Vill skýrar línur frá stjórnvöldum um næstu skref

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu í gær með formönnum stærstu stéttarfélaganna um næstu skref vegna faraldursins. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir mikilvægt að stjórnvöld tryggi afkomuöryggi fólks með sveigjanlegra atvinnuleysistryggingakerfi. Þá þurfi að framlengja lög um laun í sóttkví. Hún kallar eftir skýrum línum frá stjórnvöldum.

Mestu máli skipti að tryggja öryggi og velferð framlínufólks. „Það eru margir örþreyttir,“ segir Drífa. „Það er náttúrulega ekki hægt að leggja það á framlínustarfsfólk að vera með annan svona vetur eins og var síðasta vetur,“ segir hún. Margir hafi fært miklar fórnir og unnið sér til húðar. „Þannig að það er það fyrsta sem þarf að gæta að, það er bara andleg og líkamleg velferð starfsfólks.“

Friðrik Jónsson, formaður BHM, tekur undir þetta. Heilbrigðisstarfsfólk og annað fólk sem hafi verið í framlínunni síðasta ár sé langþreytt og staðan í heilbrigðiskerfinu grafalvarleg.

„Heilbrigðiskerfið þarf að virka, við þurfum að sjá að skólastarf geti farið af stað með eðlilegum hætti í haust, síðan viljum við sjá gjarnan að sá stuðningur sem er í gangi haldi áfram, það er ekki tímabært að fara að draga úr þeim aðgerðum strax,“ segir Friðrik. 

En hann segir einnig mikilvægt að horfa lengra. „Það verður að vera meiri langtíma uppbygging, langtíma hugsun í því; hvert við viljum stefna, hvert við viljum fara, hvað við viljum gera. Að vera með áherslu á hugvit og menntun, hvar leitum við nýrra fanga?“

Ákvarðanir vegna faraldursins í höndum stjórnvalda

Sóttvarnalæknir sagði í gær að hann ætlaði ekki að leggja til hverjar næstu aðgerðir vegna faraldursins skyldu að vera, það væri í höndum stjórnvalda. 

„Ég er fyrir ákveðnum vonbrigðum með það að stjórnvöld virðast ætla að taka þetta inn á hið pólitíska svið í staðinn fyrir faglega sviðið, sem gerir óvissuna meiri heldur en áður,“ segir Drífa. „Það hefur ekki gefist neitt sérstaklega vel í öðrum löndum að vera í pólitískum deilum um aðgerðir.“

Friðrik bendir á að stjórnvöld þurfi að horfa til fleiri þátta en sóttvarna. „Það er nú þannig að stjórnvöld á endanum bera ábyrgðina. Sóttvarnalæknir leggur til út frá forsendum sóttvarna, stjórnvöld verða að horfa til annarra þátta,“ segir Friðrik.

„En við skulum hafa það í huga að lífheilsulegir þættir og efnahagslegir þættir eru ekki endilega í andstöðu. Það hefur áhrif á vellíðan okkar, geðheilsu og annað ef við erum áfram í innilokunarástandi.“