Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Boða harða gagnsókn og hvetja borgarbúa til að flýja

04.08.2021 - 03:43
epa09391920 Afghan security forces patrol after they took back control of parts of Herat city following intense battle with Taliban militants, in Herat, Afghanistan, 03 August 2021. Heavy fighting continued in Kandahar, Lashkargah, and Herat cities as the Taliban continued pressing on with their surge in Afghanistan and breaking through a tough resistance by the government forces. The fighting in Herat displaced hundreds of families as people left their houses to seek refuge in central parts of the city, mostly settling with relatives.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirstjórn afganska hersins hvetur íbúa borgarinnar Lashkar Gah í suðurhluta landsins til að flýja borgina tafarlaust þar sem stjórnarherinn sé í þann mund að hefja stórfellda gagnárás til að hrekja talibana frá borginni. Tugir borgarbúa hafa þegar fallið í bardögum stjórnarhers og talibana síðustu daga.

 

 

Talibanar hafa lagt undir sig stór svæði í dreifðari byggðum Afganistans síðustu vikur og mánuði eftir því sem fækkað hefur í herliði erlendra ríkja í landinu. Hafa þeir meðal annars náð nokkrum landamærabæjum á sitt vald.

Sækja af hörku að lykilborgum

Undanfarna daga hafa þeir sótt hart að nokkrum stærri borgum landsins, svo sem Herat við írönsku landamærin, og Kandahar og Lashkar Gah í suðri. Um 200.000 manns búa í Lashkar Gah, höfuðborg Helmand-héraðs. Talibanar hafa þegar náð nokkrum hverfum borgarinnar á sitt vald, hertekið þar nokkrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og hrakið fólk frá heimilum sínum.

Hershöfðingi í afganska stjórnahernum ávarpaði borgarbúa í gær og hvatti þá til flótta. Sagðist hann vita að það væri öllum erfitt að yfirgefa heimili sín en bað fólk að fyrirgefa það, þótt það yrði á hrakhólum í nokkra daga. „Við berjumst við talabanana hvar sem þeir eru niðurkomnir," sagði hershöfðinginn Sami Sadat.

Talibanar „úti um allt“

Það geta hins vegar ekki allir flúið Lashkar Gah, eins og ónafngreindur borgarbúi lýsti fyrir útsendara AFP-fréttastofunnar. „Talibanarnir eru alstaðar í borginni, þú sérð þá á mótorhjólum á götum hennar. Þeir handtaka og skjóta fólk sem á snjallsíma," sagði íbúinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðinna höfðu minnst 40 almennir borgarar fallið í valinn í orrustunni um Lashkar Gah frá mánudegi til þriðjudags. Með morgninum hefst svo boðuð stórsókn stjórnarhersins.