Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir starfsfólks Quantas sendar í launalaust leyfi

epa08090473 An airplane flies through the clouds during a partial solar eclipse seen from Noveleta town, Cavite province, Philippines, 26 December 2019.  EPA-EFE/FRANCIS R. MALASIG
 Mynd: EPA
Ástralska flugfélagið Qantas tilkynnti í dag þá ákvörðun sína að senda vel á þriðja þúsund starfsmanna í launalaust leyfi. Ástæðan er sögð vera sú að mjög hefur dregið úr eftirspurn eftir flugferðum í kjölfar mikillar útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar víða um landið.

Milljónir Ástrala mega sig hvergi hreyfa vegna útgöngubanns sem stjórnvöld hafa gripið til sem úrræðis.

Nær allir flugmenn Qantas og lággjaldaflugfélagsins Jetstar, áhafnir og starfsmenn á flugvöllum verða því að sætta sig við að halda sig heima frá því um miðjan ágúst og í tvo mánuði eftir það.

Ákvörðunin hefur mest áhrif á starfsfólk í Nýja Suður-Wales en þar ríkja nú mjög miklar ferðatakmarkanir. Í yfirlýsingu kemur fram að nánast allur floti félagsins var í notkun innanlands í maí en í júlí var hlutfallið komið niður í 40%.