Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðverjar ætla að bjóða upp á örvunarskammt bóluefna

epa07640320 German Minister of Health Jens Spahn speaks during a press conference in Berlin, Germany, 11 June 2019. Spahn presented proposals for a ban on conversion therapy.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA
Þjóðverjar hyggjast bjóða eldra fólki og fólki í áhættuhópum svokallaðan örvunarskammt af bóluefnum gegn COVID-19. Eins er ætlunin að gefa börnum á aldrinum 12 til 17 ára kost á bólusetningu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu heilbrigðisráðherra allra sambandsríkjanna.

Niðurstaða ráðherranna eftir samráð við Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, er að bjóða upp á mRNA efni Pfizer og Moderna. Einnig var ákveðið að bjóða börnum á aldrinum 12 til 17 ára upp á bólusetningu.

Ákvörðunin endurspeglar áhyggjur þýskra heilbrigðisyfirvalda af því að Delta-afbrigði veirunnar kunni að koma af stað fjórðu bylgju faraldursins í landinu, sem gæti orðið til þess að grípa þyrfti til stórhertra sóttvarnaaðagerða og útgöngubanns að nýju.

Bólusetning barna verður valkvæð en það á einnig við um alla þýska borgara, samþykki foreldra þarf fyrir bólusetningu og læknisrannsókn verður að leiða í ljós að barni stafi ekki hætta af bólusetningunni.

Ríflega helmingur Þjóðverja telst fullbólusettur og rúm 60% hafa fengið fyrsta skammt. Þegar hefur tíunda hvert þýskt barn á aldrinum 12 til 17 ára verið bólusett.

Undanfarna daga hafa greinst yfir tvö þúsund ný smit daglega og nýgengi undanfarna viku er 18 smit á hverja 100 þúsund íbúa.