Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Í raun og veru ekki verið að breyta minnisblöðunum“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Það er í raun og veru ekkert verið að breyta minnisblöðunum,“ segir Þórólfur Guðnason um nýtt fyrirkomulag þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum. Þórólfur tilkynnti á upplýsingafundi í dag að hann muni ekki leggja formlega til ákveðinna aðgerða.

Ákvörðunin sé í höndum stjórnvalda. „Ég held að það sé komið að því að stjórnvöld þurfi að huga vel að því til hvaða aðgerða sé gripið. Það er ekki víst að ég muni á þessum tímapunkti leggja til einhverjar ákveðnar aðgerðir. Við erum búin að ganga í gegnum þetta margoft með þeim aðgerðum sem við höfum gripið til. Við vitum hvað virkar og hvað ekki,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi dagsins.

Þórólfur útskýrði breytingarnar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. „Núna í ljósi stöðunnar þarf að taka tillit til fleiri atriða, til að mynda áfallaþols landspítala, útbreiðslu bólusetningu og annarra þátta í samfélaginu. Þá finnst mér rétt að ég bendi stjórnvöldum á þær leiðir sem við höfum farið fram að þessu og hvernig þær hafa gengið. Valið standi þá á milli þessara leiða sem við höfum bbotað. Það er allt og sumt,“ sagði Þórólfur Guðnason í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur fréttamann.

Sóttvarnalæknir bætti þá við að hann teldi það vænlegra að svo stöddu en að koma með eina beinharða tillögu til stjórnvalda.

Áætlað er að núgildandi sóttvarnaaðgerðir renni út 13. ágúst. Því muni ekki koma fram formlegt minnisblað frá sóttvarnalækni þar sem mælt er sérstaklega með ákveðnum aðgerðum.

„Við erum aðeins á öðrum stað núna en áður. Faraldurinn er að hegða sér öðruvísi og við erum að reyna að skoða betur alvarlegar afleiðingar smitsins heldur en beinhart fjölda tilfella. Við þurfum því að taka tillit til fleiri þátta og ég held að stjórnvöld þurfi að koma meira inn í endanlega ákvarðanatöku en áður.

Þórólfur segir að stjórnvöld, líkt og verið hefur, muni ákvarða hvaða hagsmuni þau taka inn í sitt mat. Hann segir þá að ákvörðunin um breytingu fyrirkomulagsins sé alfarið hans eigin. Þórólfur minnir þá á faraldurinn sé ekki búinn.

„Faraldurinn er kannski ekki eins alvarlegur og áður, við erum ekki að sjá eins alvarlegar afleiðingar og eins alvarleg veikindi hjá þeim sem eru bólusettir. Þess vegna hefur bólusetningin komið okkur til góða. Ég er smeykur við það ef við fáum mjög mikla útbreiðslu, það gæti endað með miklum fjölda veikra og það er það sem ég hef bent stjórnvöldum á að hugsa um,“ sagði Þórólfur.

Þú munt þá reifa stöðuna, smitfjöldann og áhættuna sem Landspítalinn stendur fyrir og mæla með aðgerðum út frá því með opnum hætti?

Ég legg mat á stöðuna eins og hún er og bendi á hvað ég tel að geti gerst ef ástandið heldur áfram og versnar. Stjórnvöld þurfi þá verulega að hugsa hvort grípa eigi til harðari aðgerðir á þeim tímapunkti og bendi þá á fyrri aðgerðir sem við höfum gripið til og hafa skilað árangri. Tillögurnar eru til og þær eru margar,“ segir Þórólfur.

„Það hafa verið harðar aðgerðir og ekki eins harðar aðgerðir og ég held að það sé rétt að stjórnvöld taki tillit til þess. Ég býst fastlega við því að við verðum áfram í samræðum um það og um endanlega niðurstöðu eins og verið hefur. Það er engin grundvallar breyting í þessu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Andri Magnús Eysteinsson