Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hinsegin dagar glæða borgina lífi þessa vikuna

03.08.2021 - 09:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hinsegin dagar hefjast í dag með setningarathöfn á hádegi við Ingólfsstræti. Ekki verður af Gleðigöngunni í ár frekar en í fyrra en ljóst er að mikil litagleði, regnbogar, tónlist og skreyttir hópar muni prýða borgina næstu daga. Ragnar Veigar Guðmundsson, sem er í stjórn Hinsegin daga, sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að dagskráin í ár væri fjölbreytt og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

„Vikan verður full af hinseginleika alls staðar þar sem við getum komið honum fyrir. Auðvitað er hátíðin með örlítið breyttu sniði miðað við í venjulegu árferði en við þekkjum þetta nú orðið hvernig þetta þarf að fara fram til þess að vera innan sóttvarnatakmarkana, “ segir Ragnar Veigar. 

Dragdrottningar, fræðsla og menning

Mikið verður um alls kyns fræðsluviðburði á hátíðinni í ár en jafnframt verður hægt að fylgjast með þeim í gegnum streymi. Viðburðirnir verða því sérstaklega fjölbreyttir í ár, allt frá afslöppuðum umræðuviðburðum til dragsýninga. Á laugardaginn verður svokallaður „dragbröns“ í Gamla Bíó. Þá munu dragdrottningar skemmta gestum á meðan þeir gæða sér á dögurði. 

„Það er til dæmis mjög áhugaverður fræðsluviðburður seinnipartinn í dag, samtal kynslóðanna,  í bókabúð Máls og menningar. Þar verða þrír einstaklingar á mismunandi aldri að segja frá sinni hinsegin reynslu í kringum tvítugt. Þetta verður bara svona afslappaður viðburður með góðu spjalli, “ segir Ragnar Veigar og minnir á að skemmtunin sé aldrei langt undan. 

Engin gleðiganga en lofa stuði

Gleðigangan var í fullum undirbúningi þegar tilkynnt var um nýjar sóttvarnatakmarkanir fyrir tíu dögum síðan. Nú hefur hún verið blásin af en Ragnar Veigar segir stjórnendur hátíðarinnar þó ætla að glæða miðborgina lífi á laugardag þó ekki liggji fyrir með hvaða móti það verði gert. Hann býður alla velkomna, óháð því hvort þeir tilheyri hinsegin samfélaginu eða ekki.