Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frjálsíþróttafólkið sem fylgjast þarf með á ÓL

Mynd: EPA-EFE / EPA

Frjálsíþróttafólkið sem fylgjast þarf með á ÓL

03.08.2021 - 11:02
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, frjálsíþróttalýsandi, fékk það erfiða verkefni að velja þrjár frjálsíþróttastjörnur Ólympíuleikanna í Tókýó sem nú fara fram. Val Sigurbjörns byggðist á því að fólkið sem um ræðir á allt möguleika á verðlaunum úr fleiri en einni grein.

Fastur liður í Íþróttavarpi RÚV er verðlaunapallurinn þar sem fulltrúar RÚV í Tókýó, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Einar Örn Jónsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og María Björk Guðmundsdóttir, skiptast á að velja þrjá bestu einstaklingana í hinum ýmsu greinum. Í þætti gærdagsins kom það í hlut Sigurbjörns Árna að velja þrjár stjörnur frjálsíþróttakeppninnar í Tókýó, þó svo hún sé rétt að byrja og allt geti enn gerst. 

Sigurbjörn Árni ákvað að velja einstaklinga sem eiga möguleika á því að fá verðlaun í fleiri en einni grein. Í bronsverðlaunasætinu eru tveir einstaklingar en fordæmi urðu fyrir því á sunnudag þegar Katari og Ítali deildu efsta sætinu í hástökki. Saman í þriðja sætinu eru Joshua Cheptegei frá Úganda og Shaunae Miller-Uibo frá Bahama-eyjum. Cheptegei hefur nú þegar náð sér í silfur í 10 kílómetra hlaupi karla og á möguleika á að vinna 5 kílómetrana, en hann á heimsmetið í báðum greinum. Miller-Uibo er komin í úrslit í 200 metra hlaupi kvenna og á samkvæmt Sigurbirni Árna, góða möguleika á að vinna 400 metra hlaupið. 

Í silfursætinu er hin jamaíska Elaine Thompson-Herah, nýkrýndur Ólympíumeistari og Ólympíumethafi í 100 metra hlaupi kvenna.  Thompson-Herah er mjög sigurstrangleg í 200 metra hlaupinu sömuleiðis en Sigurbjörn Árni hefur trú á því að hún muni setja heimsmet í þeirri grein. Hlaupið verður til úrslita í 200 metra hlaupi kvenna í dag en bein útsending frá frjálsum íþróttum hófst klukkan 10 í dag. 

Gullverðlaun frá Sigurbirni Árna hlýtur Hollendingurinn Shifan Hassan sem varð í gær Ólympíumeistari í 5 kílómetrahlaupi kvenna. Hassan ætlar hins vegar ekki að láta það duga af því að hún er líka skráð til leiks í 10 kílómetra hlaupi og 1500 metra hlaupi. Sigurbjörn Árni telur það allt eins líklegt að hún nái í gullverðlaun í öllum þessum greinum sem yrði þá eitt af stærstu afrekum frjálsíþróttasögunnar. „Menn eru að veðja á eina grein, en hún lætur bara vaða og leggur allt undir þetta,“ bætir Sigurbjörn við. 

Brot úr Íþróttavarpi RÚV má heyra í spilaranum hér fyrir ofan. Íþróttavarp RÚV er sent út á hverjum degi á meðan Ólympíuleikunum stendur. Þátturinn er á dagskrá Rásar 2 á virkum dögum klukkan 18:10 og er alltaf aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum.