Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Alltaf sjarmerandi þrátt fyrir færri fyllerí á frívakt

03.08.2021 - 13:15
Mynd: Ólafur Gros / RÚV
Þó svo að makrílvertíðin fari rólega af stað er nú mikið líf og fjör á Þórshöfn. Kona sem er mætt á vaktina tuttugasta árið í röð segir margt hafa breyst en sjarminn yfir því að mæta á vertíð sé alltaf sá sami.

Fyrsta vertíðin fimmtán ára

Það er jafnan mikið líf og fjör á Þórshöfn á þessum árstíma. Árið í ár er engin undantekning en um níutíu manns vinna nú hjá Ísfélaginu á sumarvertíð sem fór af stað í síðustu viku. Ein þeirra er Árdís Inga Höskuldsdóttir, verkstjóri.  „Þetta er bara geggjað. Ég kom hérna á mína fyrstu vertíð árið 2001, fyrir tuttugu árum þegar ég var fimmtán ára, þannig að það er einhver sjarmi yfir þessu,“ segir Árdís.

Unnið allan sólarhringinn

Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri stendur einnig vaktina. Hann segir vertíðina fara vel af stað. „Við byrjuðum makrílvertíð um síðustu helgi og Sigurður kom núna í morgun til okkar, túr númer tvö, þannig að núna er allt að byrja, stemning og stuð. Sigurður kom með 950 tonn af makríl og við verðum svona sirka tvo sólarhringa að vinna úr honum,“segir Siggeir.

Og þá er unnið allan sólarhringinn?

„Já, þetta er alltaf unnið bara um leið og þetta kemur í hús og klárað, aldrei stoppað neitt á milli.“

En til þess að allt gangi smurt þarf starfsmannahópurinn að ganga í takt og þar kemur Árdís verkstjóri sterk inn. „Úff, það getur verið mjög stressandi sko, það er bara að stjórna fólkinu, að það sé að gera rétta hluti og fylgjast með gæðunum því gæðin eru það sem skiptir mestu máli í framleiðslunni. Og svo bara að fylgjast með að allt gangi smurt,“ segir Árdís. 

Margt breyst á síðustu 20 árum 

Hún segir margt hafa breyst á þeim tuttugu árum sem hún hefur verið í bransanum. „Það var áður þegar það voru bara Íslendingar og svona þá var miklu meiri svona þéttleiki í gangi. Og ef það komu stopp þá voru nú allir dottnir í fyllerí og svona, það hefur verið minna um það síðustu ár.“