Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Allir sem fengu Janssen fá Pfizer fyrir 20. ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stefnt er að því að allir sem voru bólusettir með bóluefni Janssen á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið örvunarskammt af Pfizer-bóluefninu fyrir 20. ágúst. Þetta sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Í dag hefst örvunarbólusetning skólastarfsfólks á Suðurlandsbraut 34 en síðar í ágúst, þegar allir hinir sem fengu Janssen-efnið verða boðaðir, verða bólusetningar aftur færðar yfir í Laugardalshöll.

Óvenjumikið álag er á starfsfólki heilsugæslunnar þessa dagana, bæði í sýnatöku og bólusetningu. Sýnatakan skiptist í þrennt; einkennasýnataka, sóttkvíarsýnataka og svo hraðpróf fyrir þá sem eru á leið úr landi. Suma daga eru hátt í fimm þúsund skimaðir. Heilsugæslan hefur auglýst eftir fleira starfsfólki og nokkrir hafa verið kallaðir til vinnu úr sumarfríi. Óskar segir starfsfólkið taka því vel.  

„Já, já. Eins og núna þegar við tókum þá ákvörðun að bólusetja kennara og starfsfólk skóla þá þurfum til sjö til átta starfsmenn til viðbótar. Og það kom alveg um leið. Þannig að fólk er alveg í gírnum til að bjarga og stoppa þennan faraldur,“ segir hann.