Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðburðaríkum tíunda degi Ólympíuleikanna lokið

epa09388256 Sifan Hassan of the Netherlands celebrates winning the women's 5000m final at the Athletics events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 02 August 2021.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Viðburðaríkum tíunda degi Ólympíuleikanna lokið

02.08.2021 - 16:00
Tíunda keppnisdegi Ólympíuleikanna í Tókýó er lokið. Þá var keppt í fimleikum, frjálsum, fótbolta og svo mörgu öðru en stiklað er á því helsta hér að neðan.

Í langstökki karla var mikil dramatík. Grikkinn Miltiadis Tentoglu sveif 8,41 metra í lokastökki sínu í úrslitunum og jafnaði þá Kúbumanninn Juan Miguel Echevarria. Þegar tveir eru jafnir gildir næstlengsta stökk keppenda og þar var Tentoglu með tveggja sentimetra forskot á Echevarria og fékk því gullið.

Í 100 metra grindahlaupi kvenna hafði Jasmine Camacho-Quinn frá Púertó Ríkó mikla yfirburði. Hún setti ólympíumet í undanúrslitunum í gær og vann svo í dag með 15 hundraðshluta forskoti á heimsmethafann, Kendru Harrison frá Bandaríkjunum. Sigurtími Camacho-Quinn var 12,37 sekúndur.

Hollenska hlaupadrottningin Sifan Hassan stóð í ströngu í dag. Hún hóf daginn á undanrásum í 1500 metra hlaupi og féll þegar lokahringurinn var að hefjast. Hún spratt á fætur og með miklum spretti sigraði hún í riðlinum og komst í undanúrslit. Í seinni hluta keppni dagsins var hún svo aftur mætt, nú í úrslitum 5000 metra hlaupsins. Átök morgunsins virtust lítil áhrif hafa á hana því hún sigraði í 5000 metrunum með góðu forskoti. Hassan keppir svo líka í 10000 metra hlaupi á leikunum.

Í fimleikahöllinni voru úrslit á þremur áhöldum í dag, næst síðasta keppnisdaginn. Bandaríkjakonan Jade Carey stóð upp úr í gólfæfingum og fékk 14,366 stig fyrir sínar æfingar og gullverðlaun. Kínverjar fengu gull og silfur í hringjunum. Liu Yang sigraði með 15,5 og You Hao varð annar með 15,3 í spennandi keppni. Mesta spennan var svo í stökki karla. Þar fengu Shin Jeahwan frá Suður-Kóreu og Denis Abliazin frá Rússlandi sömu einkunn, 14,783. Jaehwan var hins vegar með hærra erfiðleikagildi í sínum stökkum og fékk því gullið.

Undanúrslit í fótbolta kvenna voru í dag og í úrslitum mætast Kanada og Svíþjóð. Kanada mætti Bandaríkjunum og fékk vítaspyrnu þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. Úr því skoraði Jessica Flemming og 1-0 fór. 1-0 fór líka hjá Svíþjóð gegn Ástralíu. Fridolina Rolfö skoraði eina mark leiksins og Svíar eru í úrslitum aðra leikana í röð en þær fengu silfur í Ríó.

Þær greinar sem RÚV sýndi frá í dag má sjá í spilaranum hér. Neðst í fréttinni er svo textalýsing með helstu atburðum og verðlaunum dagsins.

Dagskrá sjónvarpsrása RÚV frá leikunum var eftirfarandi í dag:

23:50 Frjálsíþróttir
04:30 Frakkland-Bandaríkin í körfubolta kvenna
07:50 Bandaríkin-Kanada í fótbolta kvenna (undanúrslit)
07:55 Úrslit á stökum áhöldum fimleika RÚV 2
09:50 Frjálsíþróttir
10:50 Ástralía-Svíþjóð í fótbolta kvenna (undanúrslit) RÚV 2
13:00 Úrslit í einliðaleik karla í badminton