Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smituðu ferðamennirnir í Herjólfi reyndust þrjátíu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hópur þrjátíu erlendra ferðamanna sem sigldi með Herjólfi til Vestmannaeyja í fyrradag er kominn í einangrun í nýja farsóttarhúsinu sem var opnað í Þórunnartúni í gær. Greint var frá því í gær að fimmtán manna hópur hefði greinst með COVID-19 stuttu eftir komuna til Vestmannaeyja en Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segir þá hafa reynst tvöfalt fleiri. Þeim heilsist misvel en enginn sé alvarlega veikur.  

Hópurinn fór í sýnatöku áður en hann lagði af stað til Vestmannaeyja, til að fá vottorð vegna fyrirhugaðrar heimferðar, en fólki er ekki skylt að sæta sóttkví eftir slíka sýnatöku. 

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir enga farþega í Herjólfi hafa þurft að sæta sóttkví vegna hópsins. Enginn sé talinn hafa verið nógu nálægt fólkinu til að smitast. Ferðaþjónustufyrirtæki sem hópurinn hefur átt samskipti við hafi verið látin vita og einhverjir starfsmenn kunni að hafa verið sendir í sóttkví.

Lögreglan í Eyjum sagði í gær að hópurinn hefði ekki stigið á land í Heimaey heldur haldið sig í rútu, farið stuttan bíltúr um bæinn og svo beinustu leið í næstu ferð með Herjólfi til baka.

250 dvelja í einangrun í farsóttarhúsum og 160 í sóttkví. Gylfi Þór bindur vonir við að það dragi úr álaginu í farsóttarhúsum þegar ný reglugerð tekur gildi síðar í vikunni um að þar geti aðeins dvalið fólk í einangrun.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV