Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjölgar mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins

02.08.2021 - 21:11
default
 Mynd: Aðsend mynd: Ari Þórólfur J? - RÚV
Íbúum í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað hraðast á landinu á síðustu fimm árum.

Alls hefur íbúum í átta sveitarfélögum sem telja má sem nágrannasveitarfélög höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 20,6% frá árinu 2016 eða úr 43.220 í 52.120.

Sveitarfélögin átta eru Reykjanesbær, Grindavík, Vogar, Suðurnesjabær, Akranes, Árborg, Hveragerði og Ölfus. Mest er fjölgunin í Reykjanesbæ, þar sem íbúum hefur fjölgað um tæp 25% á tímabilinu.

Hlutdeild höfuðborgarsvæðis óbreytt

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru nú 238.000. Þeim hefur fjölgað í réttu hlutfalli við fjölgun landsmanna, þ.e. um 10,6% á síðustu fimm árum og er hlutfall landsmanna sem býr á höfuðborgarsvæðinu því óbreytt, um 64%.

Innan höfuðborgarsvæðisins er fjölgunin mest í Mosfellsbæ, eða 34,2%. Þar búa nú 12.880 manns. Raunar hefur ekkert sveitarfélag með fleiri en þúsund íbúa vaxið eins og Mosfellsbær á tímabilinu.

Minnst er fjölgunin í Hafnarfirði, 3,8% og Seltjarnarnesi, 6,1%. Í Reykjavík búa 134.000 manns og hefur íbúum fjölgað um 9,1% á fimm ára tímabili.

Fjölgar úti á landi, en ekki jafnmikið

Sé litið til annarra sveitarfélaga, sem hvorki eru á höfuðborgarsvæðinu né eitt fyrrnefndra nágrannasveitarfélaga, fjölgar íbúum einnig, en þó minna en landsmeðaltal.

Alls bjuggu 77.460 í þessum sveitarfélögum árið 2016 en 81.290 í ár og nemur fjölgunin 4,9%.

69 sveitarfélög eru á landinu. Íbúum hefur aðeins fækkað í tólf þeirra og eiga þau flest sameiginlegt að vera fámenn, jafnan á Norðurlandi vestra eða Vestfjörðum. Undantekning er Fjallabyggð, en þar búa 1.970 manns og er sveitarfélagið það 23. fjölmennasta á landinu. Íbúum þar fækkar um 3,4% á tímabilinu.

Straumurinn enn suður

Þótt íbúum fjölgi í öllum landshlutum, er það enn svo að hlutfall íbúa á Suðurlandi hækkar. Minnst fjölgar íbúum á Norðurlandi vestra eða um 3,2% og búa þar 7.410 manns. Þá fjölgar Vestfirðingum um 3,6% og eru þeir 7.155.

Á sama tíma fjölgar á Suðurnesjum um 21,7% og á Suðurlandi um 15,8%.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV