Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Einkaþota sökk ofan í slitlag á Rifi og festist

02.08.2021 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Adolf Ingi Erlingsson
Einkaþota sem lenti á flugvellinum á Rifi á Snæfellsnesi í gær festist skammt frá flugbrautinni þegar flugmaðurinn ætlaði að koma henni í stæði. Hjól þotunnar sukku ofan í slitlagið. Þotan er enn föst og stefnt er að því að lyfta henni upp á miðvikudag. Þetta staðfestir Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia.

Hann segir að engan hafi sakað og að málið sé á borði lögreglu og rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Mynd með færslu
 Mynd: Adolf Ingi Erlingsson

Grettir getur ekki sagt til um það hvort vélin hafi verið of þung en segir að almennt sé það ákvörðun flugstjóranna sjálfra hvar þeir lendi og á þeirra ábyrgð að fljúga yfir lendingarstað og tryggja að aðstæður séu í lagi. 

Ekki hefur náðst í Lögregluna á Vesturlandi vegna málsins. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður sagði að vélin hefði sokkið ofan í flugbrautina sjálfa en samkvæmt uppfærðum upplýsingum frá Isavia var það ekki svo. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV