Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Einhver fær Svarta-Pétur

02.08.2021 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Formaður þingflokks Vinstri grænna segir að mun lengri tíma þurfi en gefinn var í vor til að ræða breytingar á kosningakerfinu sem minnihlutinn lagði til. Formaður þingflokks Samfylkingar telur fyrirkomulagið nú ólýðræðislegt.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður þingflokks Vinstri grænna segir að breytingartillaga um atkvæðavægi hefði þurft meiri umræðu innan þingsins áður en svo afdrifaríkar breytingar yrðu gerðar á kosningalögum.  
Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir kerfið ólýðræðislegt. Einhver sitji eftir með svarta-pétur.

Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir nauðsyn að breyta lögum á þann veg að flokkar fái þingmenn í samræmi við fylgi sitt. Það sé ekki staðan nú. „Í síðustu kosningum þá sat Samfylkingin eftir með svarta-pétur. Við vorum með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn en við fengum færri þingmenn og þetta  er réttætismál." 

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur skoðað heildarfylgi stjórnmálaflokka í nýlegum skoðanakönnunum, skiptingu kjördæmasæta og jöfnunarmanna. Hann segir að núverandi kosningakerfi tryggi ekki lengur samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta. Það sjáist af úrslitum síðustu kosninga og skoðanakönnunum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður þingflokks Vinstri grænna segir að velta megi fyrir sér hvort núverandi kerfi geti haft úrslitaáhrif. Margt sé til umræðu. Til dæmis hvort skipta eigi upp kjördæmum og fjölga eða fækka þingmönnum. 

„Þetta er bara eins og annað kannski sem snýr að lýðræðinu og kosningakerfinu og annað, að fólk vill bara ræða þessi mál í þaula og ég tel að það sé skynsamlegt. Það er margt svona sem við þurfum að ræða. Ég held að þetta eitt og sér leysi ekki þann vanda sem hefur falist í því á hverjum tíma að einhverjir flokkar fá einum manni fleiri á kostnað hins eins og margur hefur fengið í gegnum tíðina." 

Bjarkey játar að þetta gæti skipt sköpum um hvort unnt verði að mynda stjórn eftir kosningar eður ei. Þetta verði ekki fyrstu kosningarnar þar sem það sé undir. Oddný Harðardóttir segir að þess vegna muni einhver fá svarta-pétur því að þessu var ekki breytt fyrir komandi kosningar.
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir