Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

187 börn í einangrun og margt óljóst varðandi skólahald

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alls eru 187 börn í einangrun á Íslandi, smituð af COVID-19, og forstöðumaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að margt eigi enn eftir að skýrast varðandi skólahald. Á morgun hefst endurbólusetning skólastarfsfólks sem fékk Janssen-bóluefnið, en það fær nú einn skammt af Pfizer-efninu til að tryggja því betri vörn.

Bíða eftir leiðbeiningum frá heilbrigðisyfirvöldum

„Við bara förum inn í þekkta fasa núna í framhaldinu við upphaf skólastarfs. Við höfum verið í þessum aðstæðum áður. Auðvitað vonuðumst við til að við værum laus en þetta virðist verða þyngri róður en fólk sá fyrir sér þegar skólum var að ljúka í vor,“ segir Helgi Grímsson, forstöðumaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

En hvað þýðir það að fara í þekkta fasa? Býst hann við sérstökum takmörkunum í skólum til að verja óbólusett börn?

„Við sjáum á næstu dögum hver þróunin verður í þessari fjórðu bylgju. Við vinnum svo bara með ráðuneytunum og almannavörnum um það hvaða viðbúnað á að hafa. Annars fylgjum við bara þeirri leiðsögn sem Þórólfur gefur okkur, það er ekkert annað að gera. En myndin er óljós því við vitum til dæmis ekki nákvæmlega hvað það felur í sér að börn fái delta-afbrigðið,“ segir hann. Nú þegar hafi hafist samtal milli skólayfirvalda, heilbrigðisráðuneytisins, almannavarna og menntamálaráðuneytisins, en skólayfirvöld bíði eftir leiðbeiningum til að vinna út frá.

Vilja upplýsingar um delta-afbrigðið og börn

Helgi segir gott að skólastarfsfólki verði boðinn örvunarskammtur, en staða skólabarna sé enn óljós: „Við vitum að delta-afbrigðið er miklu meira smitandi en önnur afbrigði en ég veit ekki hvernig það er gagnvart börnum. Okkur vantar svona upplýsingar,“ segir hann.

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræðum við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, sagði nýlega að hún teldi mikilvægt að setja kraft í að bólusetja sem fyrst óbólusetta hópa, svo sem börn á aldrinum 12-15 ára. Hingað til hefur aðeins verið mælt með bólusetningu 16 ára og eldri hér á landi. 

„Það styttist í að skólarnir hefjist og eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvaða sóttvarnir við munum þurfa að hafa í huga í skólunum,“ segir Helgi að lokum.