Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vitleysan er sannleikanum samkvæm

Mynd: Tengivagninn / Tengivagninn

Vitleysan er sannleikanum samkvæm

01.08.2021 - 12:00

Höfundar

Melkorka Gunborg Briansdóttir skoðaði markleysu (á ensku nonsense) sem menningarfyrirbæri íslenskum barnagælum, Lísu í Undralandi og verkum austurríska myndlistarmannsins Erwin Wurm.

Hvað er markleysa? Á hverju grundvallast rugl? Af hverju leikum við okkur, bullum, missum okkur í vitleysisgangi, fíflumst? Enska orðið nonsense hefur verið þýtt á marga mismunandi vegu. Í þessari umfjöllun minni hef ég kosið að þýða orðið nonsense sem „markleysu,“ því hugtakið grundvallast einmitt á óleystri spennu milli merkingar og merkingarleysis. Til þess að markleysa sé í raun og veru marklaus verður snefill af merkingu nefnilega að vera til staðar til að hægt sé að afbaka hann.

Mynd með færslu
Erwin Wurm, Tvær fötur, einnar mínútu skúlptúr, 1998

 

 

Þvaður. Bull. Rugl. Endemisþvæla. Markleysuhjal. Meiningarleysa. Hringavitleysa. Della. Þvættingur. Vaðall. Kjaftæði. Að vera bullukollur. Að vera bullustampur. Vitleysa. Ósannindi. Óvitaháttur. Ranghermi. Raup. Að bulla um alla heima og geima. Að bulla út í bláinn. Drykkjuraus. Eldhúshjal. Barnahjal. Draumórar...

Raunveruleikanum snúið á hvolf

Markleysa er hugtak sem erfitt er að skilgreina. Eitt er þó víst, að markleysan ,,hristir upp í hlutunum,” snýr þeim á hvolf og á rönguna. Hún grefur undan hefðbundnum venjum og reglum tungumálsins, rýfur samhengið milli orðs og merkingar og vekur athygli á því hve mannleg samskipti eru tilviljanakennd og út í bláinn. Markleysan afhjúpar það hvernig raunveruleikinn er tilbúinn af okkur sjálfum en er í raun oft svolítið fáránlegur. Hún speglar heiminn eins og við þekkjum hann á nýstárlegan hátt, en í spegilmyndinni birtist hann í afskræmdri mynd.  

Markleysan er náskyld leiknum. Hún er andstæðan við hið alvörugefna og er framkvæmd af frjálsum vilja með ákveðinni meðvitund um að hún sé aðskilin frá ,,venjulegu lífi.” Bæði leikurinn og markleysan krefjast þess af okkur að við séum meðvituð um að þetta séu svið sem fylgja sínum eigin reglum og lögmálum og skapa hliðstæðan alheim sem stjórnar sér algjörlega sjálfur. Til þess að kunna að meta markleysuna og samþykkja hana til fulls, verðum við því að gefa okkur „gleði leiksins“ á vald. 

Mynd með færslu
 Mynd: demilked.com
Börn að leika ,,ýttu hnetunni“ á King’s Cross Stræti í London, 1938

Markleysan, leikurinn og ímyndunaraflið eru tengd heimi barnsins órjúfanlegum böndum, því þó hún fyrirfinnist í mörgum tegundum af bókmenntatextum er markleysan sérstaklega áberandi í barnagælum. Í stað þess að miðla siðferðisboðskap einkennast marklausar barnagælur af léttúð, kæruleysi og leikgleði. Þær taka sjálfar sig ekki of alvarlega. Í slíkum textum er sannleikanum blandað við uppspuna, skynsemi við ímyndunarafl og rökhugsun við fáránleika.

Íslenskar þulur einkennast einnig af markleysu. Ein slík, sem til er í mörgum útgáfum, hefst á orðunum: „Sat ég undir fiskihlaða föður míns.“

 

Mynd með færslu
Teikningar hins breska Edward Lear (1812-1888), en hann er talinn brautryðjandi í markleysubókmenntum ásamt Lewis Carroll.

Sat ég undir fiskihlaða föður míns.
Átti ég að gæta svíns og barna, svíns og sauða.
Menn komu að mér, ráku staf í hnakka mér,
gerðu svo mikinn skaða, lögðu eld í bóndans hlaða.
Hlaðinn tók að brenna og ég tók að renna
allt út undir lönd, allt út undir biskupslönd.
Biskup átti valið bú, gaf mér bæði uxa og kú.
Uxinn tók að vaxa, kýrin tók að mjólka.
Sankti María gaf mér sauð, síðan lá hún steindauð.
Annan gaf mér Freyja, en sú kunni ekki að deyja.
Út þótti mér gott að líta í skinninu hvíta og skikkjunni grænu.
Konan mín í kofanum býður mér til stofu að gá.
Ég vil ei til stofu gá, heldur upp að Hólum að hitta konu bónda.
Kona bónda gekk til brunns, hún vagaði og kjagaði,
lét hún ganga hettuna smettuna.
Inga litla dimma dó, nú er dauður Egill og Kegill í skógi.

 

Slíkar barnagælur og þulur má svo sannarlega skilgreina sem markleysu. Þær innihalda bæði raunveruleg og tilbúin orð og lýsa gjarnan fáránlegum og jafnvel ómögulegum atburðum. Önnur stílbrögð eins og rökfræðilegur viðsnúningur, orðaleikir, þversagnir og tilviljanakenndar tengingar eru algeng í marklausum textum af þessu tagi.

En þó marklausar barnagælur víkki sjóndeildarhringinn og hvetji okkur til að skoða tungumálið í nýju ljósi hvíla þær samt á undirliggjandi skipulagi. Rím og hljóðfræðilegar tilraunir fá vissulega forgang fram yfir röklegt samhengi, en það er einmitt melódían og takturinn í textanum sem skapar honum ákveðið form sem er í skarpri andstöðu við markleysu innihaldsins. Marklausar barnagælur eru einmitt oft sungnar, en músíkalskt eðli þeirra skapar þeim ákveðinn ramma sem við erum tilbúin að samþykkja. Hér, eins og svo oft áður, sýnir það sig hvernig markleysan krefst á þversagnakenndan hátt ákveðins kerfis til að ganga upp.

Mynd með færslu
 Mynd: Lewis Carroll
Lewis Carroll

Þegar talað er um markleysu í bókmenntum ber breska barnabókahöfundinn Lewis Carroll iðulega á góma, en hann er þekktastur fyrir sögur sínar um Lísu í Undralandi. Þar lýsir hann þeim ótrúlegu fyrirbærum sem hugarheimur barnsins geymir, en bækurnar Ævintýri Lísu í Undralandi frá árinu 1865 og Í gegnum spegilinn frá 1871 eru talin brautryðjendaverk í markleysubókmenntum. Titill þeirrar síðarnefndu er athyglisverður, en Lísa stígur einmitt „í gegnum spegilinn“ og inn í „Spegilland,“ sem er táknrænt fyrir eðli markleysunnar, speglun á raunveruleikanum þar sem allt snýr öfugt:

„Til að byrja með, þá er þarna herbergið, sem þú sérð í gegnum glerið - það er nákvæmlega eins og setustofan okkar, nema að hlutirnir snúa í hina áttina. Ég get séð það allt, þegar ég stend uppi á stól - allt nema það, sem er á bakvið arininn. Ó, ég vildi svo gjarna geta séð það! Mig langar svo mikið að vita, hvort þau kveiki eld þar í stónni á veturna [...] þegar eldurinn okkar ósar, þá kemur líka upp reykur í hinu herberginu - en það gæti bara verið í þykjustu, til að láta það líta út eins og þau hefðu eld í sínum arni. Nú, svo eru bækurnar mjög svipaðar okkar bókum, nema hvað orðin snúa í öfuga átt - ég veit það, vegna þess að ég hef haldið einni af bókunum okkar upp að glerinu, og þá halda þau líka upp bók í hinu herberginu.“

Mynd með færslu
Upprunaleg myndskreyting Sir John Tenniel, úr Lísu í Undralandi

Þó að sögurnar um Lísu í Undralandi séu skrifaðar fyrir börn eru þær mótaðar af störfum og áhugamálum Lewis Carroll, sem hét í raun Charles Lutwidge Dodgson og var lektor í stærðfræði við Oxford-háskóla. Í Lísubókunum er brugðið upp fjölmörgum gátum, rökvillum, orðaleikjum, heimspekilegum vangaveltum og þrautum sem Lísa þarf að leysa úr til að komast leiðar sinnar. Áhersla er lögð á úrlausnir sem krefjast rökhugsunar, athygli, greindar og skapandi hugsunar. Hér eru tengslin við leikinn enn og aftur áberandi, en fyrri bókin hverfist að miklu leyti í kringum mannspilin í spilastokknum á meðan framvinda seinni bókarinnar, Í gegnum spegilinn, er byggð á hreyfingum á taflborði. 

Mynd með færslu
Myndskreytingar austurríska listamannsins Lisbeth Zwerger frá árinu 1999

„Broskisi, vildirðu vera svo vænn að segja mér hvaða leið ég á að fara til að komast héðan? [...] Hvers konar fólk býr hér um slóðir?”
„Í þessari átt,“ sagði kötturinn og sveiflaði hægri loppunni, „býr hattari, og í þessari átt,“ hélt hann áfram og sveiflaði hinni loppunni, „býr marshéri. Það er sama hvorn þú heimsækir, þeir eru báðir brjálaðir.“
„En mig langar ekki til að vera innan um brjálað fólk,“ sagði Lísa.
„O, þú kemst nú ekki hjá því,“ sagði kötturinn, „við erum öll brjáluð hérna. Ég er brjálaður. Þú ert brjáluð.“
„Hvernig þykistu vita að ég sé brjáluð?“ sagði Lísa.
„Þú hlýtur að vera það,“ sagði kötturinn, „annars hefðirðu ekki komið hingað.“

Erwin Wurm og markleysuskúlptúrarnir

Og þá að öðru - úr barnabókmenntum yfir í nútímalist. Austurríski skúlptúristinn Erwin Wurm hefur orðið þekktur um allan heim fyrir Einnar mínútu skúlptúra sína. Þessir skúlptúrar sýna mannslíkamann í undarlegum stellingum og óvæntum samskiptum við hversdagslega hluti - á hátt sem virðist algjörlega tilgangslaus og jafnvel heimskulegur. Wurm býður gestum myndlistarsýninga sinna að gerast þátttakendur í verkunum, með því að búa til leiðbeiningartexta og teikningar sem þeir geta fylgt eftir. Þessar leiðbeiningar lýsa fjölda fjarstæðukenndra fyrirskipana eins og að „halda niðri í sér andanum og hugsa um hollenska heimspekinginn Spinoza,“ setjast ofan á upprétt kústskaft eða stinga höfði og handlegg inn í ísskáp, en öllum stellingunum skal halda í sextíu sekúndur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Owen Wong 2016 - Erwin Wurm
Einnar mínútu skúlptúr eftir Erwin Wurm, 2016

Önnur dæmi eru til dæmis að standa með báða fætur ofan í fötu með aðra fötu á hvolfi á hausnum, að skorða flöskur og drullusokk upp við vegg með líkamanum og að standa með hendurnar kræktar í stólarma svo að stólbakið þrýstist að andlitinu. Aðrir skúlptúrar Wurm krefjast ekki þátttöku fólks en eru engu að síður alveg jafn fáránlegir, líkt og einn sem sýnir banana sem haldið er á lofti milli tveggja rennihurða og annar þar sem tveir fætur stóls eru látnir hvíla á gulrótum. Útkomunni má lýsa sem eins konar glettnum kyrralífsmyndum þar sem hversdagsleg fyrirbæri á borð við banana, sítrónur, stóla, tennisbolta, flöskur og fatnað eru í aðalhlutverki.

Frá upphafi ferilsins hefur Wurm leikið sér að rótgrónum hefðum listasögunnar með fáránleika, glettni og háð að vopni. Hann gagnrýnir vitsmunalega áherslu listaheimsins með því að tengja merka hugsuði við marklausar athafnir á kómískan hátt, líkt og að fyrirskipa fólki að hvíla höfuðið á penna og hugsa um franska heimspekinginn Montaigne, krjúpa ofan á stólbaki og hugsa um Wittgenstein eða að fara í höfuðstöðu á púða og hugsa um rassinn á Freud.

 

Mynd með færslu
Erwin Wurm, The Idiot III, 2010

Wurm í viðtali:

„Ef maður nálgast hlutina með húmor gerir fólk strax ráð fyrir því að það eigi ekki að taka þig alvarlega. [...] En ég held að ýmsa sannleika um mannlegt samfélag megi nálgast á mismunandi vegu. Þú þarft ekki alltaf að vera grafalvarlegur. Kaldhæðni og húmor geta hjálpað þér að líta á hlutina á léttari hátt. Meira að segja þegar verið er að tala um mjög erfiða hluti. Með því að bæta við smá háðskum húmor er auðveldara að eiga við það sem er erfitt. Fólk í valdastöðum, hvort sem það er í pólitík, hernaði eða efnahagslífinu, hefur alltaf tekið sig mjög alvarlega.“

Líkt og marklausar barnagælur eru leikur að tungumálinu eru verk Wurm ,,leikur að myndum.” Skúlptúrar hans dansa á mörkum merkingar og rugls, og skapa óvænt samspil fólks við hversdagsleg fyrirbæri. Einnar mínútu skúlptúrarnir beina sjónum okkar nefnilega að mikilvægum sannleik, þeirri staðreynd að margar af félagslegum venjum manneskjunnar eru fáránlegar ef litið er á þær frá réttu sjónarhorni. Wurm vekur athygli á sjálfum fáránleika „almennrar skynsemi“ með því að setja fram afkáralegar og oft á tíðum hlægilegar myndir á eftirminnanlegan hátt. 

Og til þess að ljúka Einnar mínútu skúlptúrunum verður Wurm að fá þátttakendur. Honum tekst að sannfæra áhorfendur að framkvæma absúrd athafnir þar sem afköstin eru engin.  

Markleysan er sannleikanum samkvæm

Og markleysan er víða - ekki bara í barnagælum eða höggmyndalist. „The sun’s not yellow, it’s chicken,“ syngur Bob Dylan í laginu Tombstone Blues frá árinu 1965, franska tónskáldið Erik Satie samdi píanósvítu sem ber titilinn „þrjú tónverk í laginu eins og pera,“  og „Eia vatn! Eia perlur! [...] Kondu litla nótintáta að kyssa pótintáta úti í skógi“ orti Halldór Laxness í ljóðinu Únglíngurinn í Skóginum.

Með því að snúa skipulagi veraldarinnar á hvolf eða jafnvel beinlínis afneita því setja höfundar marklausra texta spurningarmerki við sjálfan grundvöll raunveruleikans. Markleysan er nefnilega ekki eintóm „vitleysa,“ „bjánagangur“ eða „fíflalæti.“ Hún streitist á móti þörf okkar fyrir að leysa úr margbreytilegum flækjum lífsins og dregur þær fram í staðinn. Og nákvæmlega þess vegna er markleysan á þversagnakenndan hátt sannleikanum samkvæm.

Mynd með færslu
 Mynd: demilked.com
Manchester, 1946

Mig langar að ljúka þessu innslagi á orðum Valdimars Briem úr þýðingu hans á Í gegnum spegilinn frá árinu 2013, en þar kemst hann vel að orði um skörun markleysunnar og raunveruleikans. Um Lísu í Undralandi segir hann:

„Þegar hún vaknar af draumnum, kemur í ljós, að það sem þar hafði gerst, var í raun dulbúin framlenging á hennar daglega lífi, með hlutum og persónum þar í nýju gervi, en aðallega með sömu vandamál og lausnum á þeim. Þó má einnig sjá, að sá raunveruleiki, sem kemur í ljós eftir drauminn, er framhald á draumverunni. Þetta gefur okkur tilefni til að spyrja með Lewis Carroll: Hvern dreymdi hvað?“

Pistilinn má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.
Leiklestur: Hólmfríður Hafliðadóttir og Helgi Grímur Hermannsson.
Tónlist í upphafi: Hjalti Nordal Gunnarsson.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Konur skulu þegja á safnaðarsamkomum“

Bókmenntir

Hélt að hvíld væri leti og ómennska

Menningarefni

Er heimsendir í nánd?

Pistlar

Barnfóstra og götuljósmyndari