Þegar fólk missir ástvin fá minningarnar gjarnan á sig nýjan blæ. Því fylgir sár vitneskja um að aldrei verið fleiri minningar búnar til, nema þá að við fáum aðgang að nýjum minningum um manneskjuna. Minningum annarra sem þekktu jafnvel hliðar sem við fengum aldrei að sjá.
Faðir Miriam Petru Awad, Ahmed Hafez Awad, fæddist 26. febrúar árið 1942 í Kaíró í Egyptalandi. Hann var sonur dr. Salah Eldin Hafez Awad læknis og Afaf Abdel Azim Lotfy húsmóður. Ahmed flutti til Íslands árið 1965, 23 ára gamall, og bjó hér á landi allar götur síðan. „Hann var mjög metnaðarfullur silunga- og bleikjuveiðimaður og það var að hans eigin sögn ein helsta ástæða þess að hann ílengdist á Íslandi, fyrir utan börnin hans,“ segir Miriam í samtali við Önnu Marsibil Clausen í Ástarsögum á Rás 1 um föður sinn. „Pabbi lést árið 2015 úr krabbameini.“
Átti auðvelt með að spjalla og tengjast fólki
Samband feðginanna var gott en varð betra og betra með árunum. „Þegar ég var unglingur fannst mér ég kynnast honum betur sem manneskju. Hann var þrjóskur og rosalega klár en hafði ekki menntað sig mikið, hann var örugglega með athyglisbrest,“ segir Miriam. Ahmed átti auðvelt með að tala við fólk og eignaðist vini hvar sem hann fór. „Hann var rosalega góður í að spjalla við fólk upp úr þurru. Við fórum oft í bíltúra, í Kolaportið, og við fengum okkur ís eða pulsu. Þá hittum við alltaf einhvern sem hann þekkti.“ Ahmed spjallaði lengi við kunningjana en að samtali loknu spurði Miriam: Hver var þetta? „Þá var þetta kannski einhver sem vann fyrir eitthvað fyrirtæki með honum löngu fyrir mína tíð.“
Óbein kynslóðapressa frá afa
Ahmed átti auðvelt með að heilla fólk og gleðja. „Hann hafði mjög mikla persónutöfra sem manneskja, en átti líka bara mjög áhugaverða ævi,“ segir Miriam. Afi hennar, dr. Salah, var fyrsti blóðmeinafræðingur Egyptalands og gerði miklar kröfur til elsta sonar síns. „Ég held hann hafi aldrei unnið almennilega úr því. Ég hef oft hugsað um margt í mínu uppeldi, hvað ég ætti að vera góð í námi, að það hafi óbeint verið kynslóðapressa frá afa mínum.“