Tilfinningaþrungin stund að syngja afmælissönginn

Mynd: Miriam Petra / Aðsend

Tilfinningaþrungin stund að syngja afmælissönginn

01.08.2021 - 09:00

Höfundar

Þegar Miriam fór með föður sínum í síðustu ferð þeirra, á heimaslóðir hans í Egyptalandi, vissu þau að hann væri dauðvona. Þau áttu ómetanlegan fund með gömlum skólafélögum föður hennar þar sem bæði var grátið úr sorg og gleði. Miriam var enn í Egyptalandi þegar faðir hennar féll frá en eignaðist vini í vinahóp föður síns og naut þess að heyra sögur af honum.

Þegar fólk missir ástvin fá minningarnar gjarnan á sig nýjan blæ. Því fylgir sár vitneskja um að aldrei verið fleiri minningar búnar til, nema þá að við fáum aðgang að nýjum minningum um manneskjuna. Minningum annarra sem þekktu jafnvel hliðar sem við fengum aldrei að sjá.

Faðir Miriam Petru Awad, Ahmed Hafez Awad, fæddist 26. febrúar árið 1942 í Kaíró í Egyptalandi. Hann var sonur dr. Salah Eldin Hafez Awad læknis og Afaf Abdel Azim Lotfy húsmóður. Ahmed flutti til Íslands árið 1965, 23 ára gamall, og bjó hér á landi allar götur síðan. „Hann var mjög metnaðarfullur silunga- og bleikjuveiðimaður og það var að hans eigin sögn ein helsta ástæða þess að hann ílengdist á Íslandi, fyrir utan börnin hans,“ segir Miriam í samtali við Önnu Marsibil Clausen í Ástarsögum á Rás 1 um föður sinn. „Pabbi lést árið 2015 úr krabbameini.“

Átti auðvelt með að spjalla og tengjast fólki

Samband feðginanna var gott en varð betra og betra með árunum. „Þegar ég var unglingur fannst mér ég kynnast honum betur sem manneskju. Hann var þrjóskur og rosalega klár en hafði ekki menntað sig mikið, hann var örugglega með athyglisbrest,“ segir Miriam. Ahmed átti auðvelt með að tala við fólk og eignaðist vini hvar sem hann fór. „Hann var rosalega góður í að spjalla við fólk upp úr þurru. Við fórum oft í bíltúra, í Kolaportið, og við fengum okkur ís eða pulsu. Þá hittum við alltaf einhvern sem hann þekkti.“ Ahmed spjallaði lengi við kunningjana en að samtali loknu spurði Miriam: Hver var þetta? „Þá var þetta kannski einhver sem vann fyrir eitthvað fyrirtæki með honum löngu fyrir mína tíð.“

Óbein kynslóðapressa frá afa

Ahmed átti auðvelt með að heilla fólk og gleðja. „Hann hafði mjög mikla persónutöfra sem manneskja, en átti líka bara mjög áhugaverða ævi,“ segir Miriam. Afi hennar, dr. Salah, var fyrsti blóðmeinafræðingur Egyptalands og gerði miklar kröfur til elsta sonar síns. „Ég held hann hafi aldrei unnið almennilega úr því. Ég hef oft hugsað um margt í mínu uppeldi, hvað ég ætti að vera góð í námi, að það hafi óbeint verið kynslóðapressa frá afa mínum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Miriam Petra - Aðsend
Glæsileg fjölskylda, amma og afi Miriam og faðir hennar á milli þeirra og bróðir hans þeim við hlið

Krabbameinið var komið um allt og síðasti séns að kveðja Egyptaland

Miriam ferðaðist mikið með föður sínum upp úr unglingsárum og þeim kom vel saman. „Við eignuðumst rosalega gott vináttusamband og fórum nokkrum sinnum til Egyptalands,“ segir hún. Árið 2015 tók Miriam ákvörðun um að fara til Egyptalands, dvelja þar í þrjá mánuði og læra arabísku. En rétt fyrir áramótin greindist faðir hennar aftur með krabbamein, eftir að hafa sigrast á því tveimur árum fyrr, en nú var enginn sigur í augsýn. „Þá var það komið út um allt,“ segir Miriam.

Ahmed ræddi við lækninn sinn sem hvatti hann áfram, ef hann vildi tækifæri til að fara út og kveðja fjölskylduna sína þar í síðasta sinn þá ætti hann að láta slag standa. Hann ákvað því að fara með dóttur sinni. Þau héldu af stað og til að byrja með varpaði krabbameinið og dauðadómurinn skugga á ferðalagið. „Þetta var yfirvofandi, hékk yfir ferðinni, en þegar við vorum komin út í sólina og hittum fólkið okkar var hann mjög hress að hitta alla.“

Endurfundir til heiðurs Ahmedi

Ahmed átti afmæli á meðan á förinni stóð og ákveðið var að hóa saman í endurfundi í gamla grunnskólanum hans. Endurfundir sem hópurinn hefur reglulega átt síðan meðlimirnir voru aðeins börn, ýmist í Kaíró eða London. Ahmed hafði oft talað fallega um grunnskólafélaga sína við Miriam og þau ákváðu að nýta tækifærið og kíkja saman að hitta þá. „Mér skildist eftir á að þessi dagsetning hafi verið valin með það í huga að hann kæmist því þau vissu að hann hefði komið.“ Þegar feðginin mættu var búið að útbúa afmælisköku og Miriam varð fljótt ljóst að þeir sem þarna komu saman litu svo á að þessir tilteknu endurfundir væru haldnir til heiðurs pabba hennar.

„Það var rosalega tilfinningaþrungin stund þegar þau voru að syngja afmælissönginn á arabísku og orðin þýða: megirðu lifa í hundrað ár, eða megi öll hundrað ár þín verða góð. Það er mjög erfitt að hlusta á sungið fyrir mann þegar maður veit að maður á ekki mikið eftir,“ segir Miriam.

En sorgartárin viku fljótt fyrir gleði þegar byrjað var að spila á pínanóið og dansa. „Það er mikilvægt að hitta fjölskylduna en ég held að það, að þessi viðburður hafi verið þarna og hann hafi hitt þessa gömlu vini, hafi verið það sem gerði ferðina fyrir hann,“ segir Miriam.

Mynd með færslu
 Mynd: Miriam Petra - Aðsend
Hópurinn hittist enn reglulega ýmist í Kaíró eða London og rifjar upp árin í The English School Cairo

Enginn pólitískur ríkur, bara vinátta á meðal krakkanna

Skólinn þar sem Ahmed kynntist félögum sínum hét The English
School Cairo og er grunnskóli. Faðir hennar gekk í skólann frá 1948-56, til fjórtán ára aldurs þegar hann var sendur til Englands. Miriam segir ljóst að þessi hópur, þrátt fyrir ungan aldur, hafi verið ótrúlega náinn enda halda þau sem enn lifa miklu sambandi. Skólinn var að breskum sið og krakkarnir gengu í breskum skólabúningum. Hann var fjölþjóðlegur og nemendur voru frá Egyptalandi, Bretlandi, Frakklandi, Armeníu, Ítalíu, Líbanon, Grikklandi og Sýrlandi.

Þó að það væri pólitískur rígur á milli margra þessara þjóða létu krakkarnir það ekkert á sig fá. „Fyrir þeim voru þetta bara krakkar,“ segir Miriam. „Það var erfitt andrúmsloft og það andaði köldu á milli Breta, Frakka og Egypta í kringum Súesstríðið og þetta, en þau voru ekkert að pæla í því. Þau voru bara vinir í skólanum.“

Sér fyrir sér dauðvona föður sinn hlaupa sem sex ára barn upp til mömmu sinnar

Ahmed fór heim á undan Miriam, til að halda áfram með lyfjameðferð. Miriam var enn stödd í Egyptalandi þegar símtalið kom um að faðir hennar væri fallinn frá. „Það var búið að segja okkur að hann hefði sennilega út sumarið,“ segir Miriam sem þótti bæði erfitt og gott að vera í faðmi egypsku fjölskyldunnar þegar fregnirnar bárust.

Þegar faðir hennar dó fór hún ein í göngutúr á slóðir föður síns. „Ég fór í blokkina hans og lagði blóm á tröppurnar. Labbaði upp stigann, stóð á stigapallinum og horfði á hurðina. Ég bara já, ég man eftir þessari hurð, hér bjó amma,“ rifjar Miriam upp. Þegar hún hafði átt stund þar inni var hún trufluð af manni sem var að þrífa. Hún útskýrði fyrir manninum að faðir hennar hefði búið þarna, þess vegna stæði hún þarna, og hann sagði: já, ókei og hélt áfram að skúra. Hún hélt áfram för sinni.

Mér fannst ég á þessari stundu tengjast honum rosalega vel og hef alltaf ímyndað mér að ef ég lít á hann farinn, þá sé ég lítinn sex ára strák hlaupa upp stigann til mömmu sinnar. Það var það sem hann dreymdi um að gera þegar hann varð dauðvona. Að fara aftur heim til mömmu.

„Mér fannst eins og hann hefði leitt mig þangað“

Faðir hennar var enda mikill mömmustrákur. Miriam lýsir ömmu sinni sem hjartahlýrri, hlæjandi og góðlátlegri konu sem elskaði nýjustu tísku frá París. „Hún eyddi miklum peningum í föt, og gerði afa minn mjög gráhærðan á því, enda var hún mjög flott í tauinu,“ segir Miriam um ömmu sína.

Hún á vídeóupptöku af sjálfri sér í heimsókn hjá ömmu sinni og afa, þar sem hún var bara eins árs, „þar sem hún segir á íslensku: kyssa amma líka. Þá var hún búin að læra það,“ segir hún. Undir það síðasta talaði Ahmed mikið um móður sína og sagði við bróður Miriam að hann sæi hana fyrir sér. „Ég hef alltaf séð fyrir mér að hann hafi viljað komast heim til ömmu sem lítill strákur.“

Miriam gengur áfram um hverfi föður síns, dáist að blómum og hugsar um pabba síns, þegar allt í einu hún er stödd fyrir framan gamla skólann. „Mér fannst þetta eins og hann hefði kannski leitt mig þangað,“ segir Miriam. „Ég vissi að hann væri nálægt, en vissi ekki endilega hvar hann var.“

Mynd með færslu
 Mynd: Miriam Petra - Aðsend
Ahmed í breska skólabúningnum sem hann klæddist í grunnskólanum

Boðið að taka þátt í fundinum í London

Minningar af endurfundunum eru ljóslifandi og Miriam rifjar þá oft upp. „Ég verð rosalega meyr og þakklát fyrir það að geta horft á myndbönd sem ég tók á símann af pabba mínum dansandi með vinum sínum og ég enda með fullt af vinum hans og vinkonum á Facebook,“ segir Miriam sem fær reglulega skilaboð frá gömlum vinum föður síns. Á einhverjum tímapunkti ákvað hún að senda skilaboð á skipuleggjendur endurfundanna og þakka fyrir:

Ég vildi bara þakka ykkur kærlega fyrir hvað þið gerðuð fyrir pabba minn og mér finnst frábært hvað þið eruð dugleg að hittast. Það er í raun innblástur að þið séuð að hittast eftir að hafa verið saman í grunnskóla, eftir öll þessi ár.

„Ég vildi bara segja þeim þetta,“ segir Miriam.

Hún flutti til Parísar árið 2019 og fékk á meðan hún bjó þar skilaboð frá Nadiu, konu úr vinahópnum mikla, sem bauð henni að taka þátt í endurfundunum í London sem fulltrúa föður síns. Miriam varð upp með sér yfir boðinu og þáði það. „Svo datt mér í hug að slá tvær flugur í einu höggi og hitta Ástu vinkonu mína sem bjó í Oxford á þessum tíma.“ Nadia bauð Miriam þá að taka Ástu með og þær mættu á svæðið og settust við borð á veitingastað umkringdar gömlum skólafélögum Ahmeds. „Í opnunarávarpinu frá Antoni, sem er maðurinn sem sér um skipulagið með Nadiu, er minnst á að ég sé einhvers skonar heiðursgestur sem dóttir hans Ahmeds.“

„Ég stóð þarna með tárin í augunum“

Miriam var fengin til að standa upp, sem hún gerði. Allir byrjuðu að tala um föður hennar. „Ég bara var farin að tárast. Að það skipti þau svona miklu máli að ég hefði komið. Þau voru svo þakklát en ég var bara: Þið voruð að bjóða mér, ég ætti að vera þakklát,“ segir Miriam. „Ég stóð þarna með tárin í augunum og þurfti smá móment til að jafna mig eftir þetta.“

Faðir hennar átti í einstöku sambandi við þennan hóp og þann tíma sem þau gengu í skólann saman. „Í Egyptalandi er mikil nostalgía gagnvart þessum árum. Þetta eru svona gullaldarár egypskrar menningar á 20. öld. Egypsk kvikmyndagerð er í blóma, egypskur gjaldmiðill var á svipuðu reki og breska pundið,“ segir Miriam. Faðir hans flutti frá Egyptalandi á þessum tíma og það er sú minning sem hann alltaf hafði. „Honum þótti kannski erfitt að fara til baka og sjá alla fátætkina og allt sem hafði breyst. Ég ólst upp við þessar sögur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Miriam Petra - Aðsend
Miriam og Camelia áttu góða stund saman í París

Prakkarar sem settu teiknibólu í stól kennarans

Á meðan á hádegisverðinum stóð vildu margir tala við Miriam og kona að nafni Camelia Malash kom reglulega til hennar, tók utan um hana og sagði: „Pabbi þinn var svo frábær, hann var svo mikill prakkari,“ segir Miriam en prakkaraskapinn áttu þau Camelia og Ahmed alltaf sameiginlegan sem gerði það að verkum að þau náðu einstaklega vel saman. „Hann var týpan sem setti teiknibólur í stólinn hjá kennaranum á meðan hin sátu og voru stillt, sem var kannski eitt af því sem fór í taugarnar á afa mínum,“ segir Miriam.

Miriam hélt aftur heim til Parísar en fékk svo skilaboð frá Cameliu sem vildi endilega hitta hana, því hún væri sjálf á leið til Parísar. Miriam hitti Cameliu í París og þær fóru saman að skoða Sacre Coeur. Þær skoðuðu sig um, Camelia kveikti á kerti og fór með bænir. Svo fóru þær í gjafabúðina þar sem Camelia keypti bænabönd og fleira fyrir vini sína heima í Egyptalandi. „Camelia var múslimi en hún sagði: Miriam, þetta er í raun allt sami guðinn. Það skiptir ekki máli hvernig byggingu maður er í, maður getur alltaf beðið til hans.“ Sjálf er Miriam trúlaus, hún trúir á það góða í fólki en ekki bókstafinn. „En þetta var akkúrat eitthvað sem pabbi hefði sagt og andrúmsloftið sem við ólumst upp í.“

Frétti að Camelia væri einnig fallin frá

Þær fóru saman út að borða og pöntuðu sér franskan hádegismat. Camelia borðaði lítið af sínum mat en drakk mikið hvítvín og lék á als oddi. Hún kallaði Miriam systkinabarn sitt við þjóninn og hann hafði orð á því hvað þær væru líkar. „Henni fannst það rosalega fyndið og blikkaði mig,“ segir Miriam. Þegar þær kvöddust vildi Camelia gefa Miriam bleika peysu með blúndumynstri og fleira fallegt sem hún hafði valið fyrir hana. Eftir þetta skiptust þær reglulega á skilaboðum og Camelia ávarpaði Miriam alltaf: „Ó, barnið mitt,“ eða „my dear child, how are you?“ Miriam þótti alltaf vænt um að heyra í henni og var ákveðin í að næst þegar hún kæmi til Kaíró myndi hún bjóða Cameliu í hádegismat. Henni gafst þó því miður aldrei tækifæri til þess. „Fyrir nokkrum mánuðum fæ ég skilaboð frá Nadiu þar sem hún lætur mig vita að Camelia sé fallin frá. Ég fór bara að hágráta,“ segir Miriam.

Mynd með færslu
 Mynd: Miriam Petra - Aðsend
Miriam og Ahmed voru náin feðgin sem ferðuðust mikið saman

Glugginn inn í æsku pabba skyndilega lokaður

Hún segir að eigin viðbrögð við andláti Cameliu og hversu vænt henni þótti um hana hafi komið sér á óvart því þær þekktust stutt. „Ég bjóst kannski ekki við því að þessar fáu stundir sem ég átti með þessari konu myndu gera það að verkum að ég tæki dauða hennar svona nærri mér, en það segir kannski hvað það skein af henni mikil væntumþykja fyrir manneskju sem var dóttir manns sem hún var með í grunnskóla,“ segir Miriam. „Hún var ekki einu sinni með honum í bekk, en þau voru vinir eins og allir í þessum hópi.“

Miriam saknar Cameliu. „Það er eins og hún sé gluggi inn í þennan tíma, æsku pabba sem ég get ekki spurt hann út í lengur. Sá gluggi var allt í einu lokaður. Ég sat bara við tölvuna orðlaus með tárin í augunum.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad í Ástarsögum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þessi útskriftarferð breytti lífi mínu“