Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekjur af sölu nautakjöts standa ekki undir framleiðslu

Þetta eru naut - ekki kýr.
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Afurðatekjur af nautaeldi ná ekki að standa undir framleiðslukostnaði. Nauðsynlegt er að hagræða á búunum og hækka afurðaverð til að búskapurinn verði arðbær. Formaður Landssambands kúabænda segir þjóðina þurfa að ákveða hvort stunda eigi framleiðslu hér á landi eða flytja allt

Þetta kemur fram í skýrslu sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins gaf út í vikunni um afkomu nautakjötsframleiðenda.  Í skýrslunni segir að lækkun á afurðaverði síðustu misseri hafi komið mjög illa við nautakjötsframleiðendur.

„Þetta kemur mér alls ekki á óvart, því miður. Þessar niðurstöður sýna kýrskýrt það sem við nautgripabændur höfum verið að benda á, það er að afkoma nautgripabænda er ekki viðunandi. Launaliðurinn er orðinn að engu. Þessi skýrsla fjallar um árin 2017-19 en við höfum fengið enn meiri lækkanir á afurðaverði á síðasta ári,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir formaður Landssambands kúabænda. 

Hún segir það gerast á sama tíma og stór framfaraskref hafi verið stigin í greininni, til að mynda með innflutningi á nýju erfðaefni. Hvað er þá til ráða að hennar mati?

„Ég vil meina að við séum að gera frábæra hluti í okkar framleiðslu. Þessi staða, við rekjum hana fyrst og fremst til hækkunar á aðföngum og stóraukinnar samkeppni við innflutning á nautakjöti. Við þurfum að taka ákvörðun sem þjóð hvað viljum við gera? Viljum við vernda innlenda framleiðslu. Á hvers kostnað ætlum við að auka hér innflutning. Við þurfum að velja það, viljum við hafa hér innlenda framleiðslu eða ekki?“

Mynd með færslu
 Mynd: LK - RÚV
Herdís Magna Gunnarsdóttir formaður Landssambands kúabænda.