Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Síðasta myndin úr vél Johns Snorra 

01.08.2021 - 11:51
Síðasta myndin úr GoPro vél Johns Snorra sem fórst á K2 í febrúar 2021
 Mynd: John Snorri Sigurjónsson - Elia Saikaly
Kanadíski fjallgöngumaðurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Elia Saikaly hefur birt ramma á Instagram-síðu sinni úr síðasta myndskeiðinu sem GoPro vél Johns Snorra Sigurjónssonar hafði að geyma.

Leitað að gögnum í búnaðinum

Sími, myndavél og staðsetningarbúnaður Johns Snorra kom í leitirnar í gær og var rannsakaður í morgun. Í Instagram-færslu sinni segir Saikaly frá ótrúlega erfiðum aðstæðum þegar leiðangursmenn freistuðu þess að koma höndum yfir búnaðinn til að rannsaka gögn sem hann gæti haft að geyma.  

Vonir standa til að tækjabúnaðurinn geymi upplýsingar sem varpa muni ljósi á hvort þeir John Snorri, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr komust á tind fjallsins K2 í febrúar síðastliðnum. Sem kunnugt er fórust þeir við tilraunina. 

Ótrúlega hættuleg leit að gögnum

Saikaly segir meðal annars: „Þetta var ótrúlega hættuleg leit rétt fyrir neðan 8300m. John Snorri var hæst í fjallinu af fjallgöngumönnunum þremur, festur við K2 vetraröryggislínurnar sem nepölsku sherparnir settu upp. John, Ali og JP voru allir á niðurleið. Ali Sadpara var nokkrar reipilengdir fyrir neðan og Juan Pablo verulega langt í burtu nálægt búðum 4. “ 

Sigur að finna GoPro vélina

Hann heldur áfram: „Hallinn var á bilinu 75 til 80 gráður. Ein rangt skref og þetta er búið. Sajid eyddi yfir 15 mínútum í að ná í jakka, vasa og stígvél Johns í von um að finna mikilvægu hlutina. Á einum tímapunkti dró hann hnífinn fram og byrjaði að skera föt Johns. Þú getur ekki ímyndað þér hversu erfitt það er að hreyfa/leita á manneskju þegar hún hefur látist á 8000m tindi. Ég sá fjaðrir þyrlast upp þegar hann sigri hrósandi dró fram mikilvægasta hlutinn: GoPro. Hvað myndi vélin leiða í ljós?“ 

Þarfnast frekari greiningar

Saikaly segir meðfylgjandi ramma einu myndrænu gögnin sem í hendi séu að svo stöddu. Myndbandið sé skemmt og þarfnist frekari greiningar til að kanna hvort hægt sé að vinna þaðan meiri upplýsingar. Þó feli þetta eina skot í sér allnokkrar upplýsingar í augum þeirra sem til þekkja. 

Mikilvægar upplýsingar á myndinni

„Hvað sérðu? Litur reipisins er nokkuð mikilvægt smáatriði. Hinar nepölsku sherpa-hetjur sem toppuðu K2 að vetri til myndu þekkja þetta reipi þar sem þeir komu því fyrir. En hvar er þetta? Hversu nálægt tindinum? Getur GoPro 360 vélin opinberað landfræðilega stöðu fjallgöngumanna? Hvað annað er hægt að læra af þessari mynd? Undarlegt að það spilist ekki í neinum tækjanna sem við höfum, þar á meðal GoPro 360 appinu.“ 

Saikaly segir að endingu að starfið haldi áfram. Enn sé ekki hægt að færa óyggjandi sönnur á að þremenningarnir hafi toppað tindinn á K2. 

„Við drögum engar ályktanir þegar við höldum áfram að setja verkin saman og leitum að vísbendingum um að þeim hafi tekist að toppa að vetri til.“