Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Liverpool ekki lengur á heimsminjaskrá UNESCO

01.08.2021 - 07:30
Mynd: EBU / EBU
Íbúar bresku borgarinnar Liverpool eru margir ósáttir við að borgin teljist ekki lengur til heimsminja. Þrjátíu og fjórir aðrir staðir bættust á heimsminjaskrá UNESCO í vikunni.

Síðan árið 1972 hefur eitt af verkefnum UNESCO verið að halda utan um heimsminjaskrána. UNESCO er skammstöfun fyrir hið þjála heiti United Nations Educations, Scientific and Cultural Organization. Eins og nafnið ber með sér er stofnunin ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna og hefur það að markmiði að stuðla að alþjóðlegri samvinnu á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála.

Heimsminjaskráin er listi yfir merkilega staði, manngerða eða náttúrulega, sem teljast hluti af menningararfleið mannkyns sem beri að varðveita sem slíka.

Ísland á þrjá fulltrúa á listanum, Þingvelli, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarð.

Listinn ef yfirfarinn ár hvert af sérstakri nefnd. Kórónuveirufaraldurinn hafði reyndar áhrif á störf nefndarinnar eins og annað, og hún hittist ekki í fyrra. Á fundi sínum í Fuzhou í Kína á dögunum var ákveðið að bæta 34 fyrirbærum á heimsminjaskrána. 

Nokkrar útvaldar tékkneskar, belgískar og þýskar heilsulindir eru meðal þess sem telst nú til heimsminja. Það gera sömuleiðis yfir sjö þúsund ára gamlar aðferðir frumbyggja í Chile við varðveislu á múmíum. Rústir 2300 ára gamallar stjörnuathugunarstöðvar í Perú flokkast nú sem heimsminjar og einnig franska borgin Nice, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

En það eru ekki bara viðbætur á listann góða. Breska borgin Liverpool var í ár strikuð út af heimsminjaskránni. Valnefndin tók þá ákvörðun og segir ástæðuna vera að nýleg uppbygging á hafnarsvæðinu skyggi á gamla bæinn sem átti þátt í að tryggja borginni sæti á listanum árið 2004.