Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Högl á stærð við golfkúlur féllu til jarðar í Noregi

01.08.2021 - 05:31
Erlent · Hamfarir · Náttúra · hagl · Haglél · Noregur · Snjókoma · Veðurfræði · þrumuveður · Veður
Haglkorn á stærð við tenniskúlur féllu 31. júlí 2021 í Agðafylki og Þelamörk í Noregi.
 Mynd: Kari Anne Overskeid
Íbúum í Agðafylki í Noregi brá heldur í brún í gærkvöldi þegar haglél skall á þar sem hvert og eitt hagl var á stærð við golfkúlu. Veðurfræðingur segir slíkt afar óvanalegt.

Norska ríkisútvarpið hefur eftir konu sem var á ferðinni skömmu eftir að élið skall á að hún fagnaði því mjög að hafa ekki verið úti að ganga. Haglið hefði getað slasað hana alvarlega.

Kari Anne Overskeid segist aldrei hafa séð annað eins. Lauf og greinar sem haglélið hafi greinilega rifið með sér hafi legið eins og hráviði um allt.

Fréttir hafa borist af því að bílar séu nokkuð skemmdir eftir haglélið, alsettir litlum dældum eftir harðfrosin snjókornin. Eins segir fólk haglið hafa skilið eftir ummerki á vegum.

Veðurfræðingurinn Per Egil Haga segir norsku veðurstofuna hafa fengið allmargar tilkynningar um haglél í Agði og Þelamörk. Hann kveður þunga skúrabakka hafa safnast upp yfir svæðinu, því hafi fylgt þrumuveður og mikil úrkoma, þar á meðal þessi óvenju stóru haglkorn.

Haga segir ekki óalgengt að haglél skelli á að sumarlagi en stærðin á þessum sem nú féllu sé afar óvanaleg fyrir Noreg. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV