Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gætu grætt á gölluðu kerfi fjórðu kosningarnar í röð

01.08.2021 - 15:42
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði
 Mynd: RÚV/Freyr Arnarson
Síðustu stóru skoðanakannanir gefa allar til kynna að fjórðu kosningarnar í röð verði skipting þingsæta milli flokka ekki í samræmi við vilja almennings. Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum myndu einn eða fleiri stjórnarflokkanna fá fleiri þingsæti en atkvæðaskiptingin segir til um. Leiðrétta má skekkju í kosningakerfinu með einfaldri lagasetningu en stjórnarflokkarnir stóðu gegn tilraun stjórnarandstöðuflokka í þá átt.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur skoðað heildarfylgi stjórnmálaflokka í nýlegum skoðanakönnunum, skiptingu kjördæmasæta og jöfnunarmanna. Hann segir að núverandi kosningakerfi tryggi ekki lengur samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta. Það sjáist af úrslitum síðustu kosninga og skoðanakönnunum.

Stjórnarflokkarnir græða

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup fengju Vinstri græn einn aukaþingmann á kostnað Viðreisnar. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gætu líka náð inn aukamanni umfram fylgi með því að ná inn öðrum kjördæmakjörnum manni, ólíkt stjórnarandstöðuflokkunum. Í næstu Þjóðarpúlsum á undan var Framsóknarflokkurinn með einum manni meira en atkvæðahlutfallið sagði til um. Í nýlegri könnun MMR fyrir Morgunblaðið fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hvor um sig einu þingsæti meira en fylgið sagði til um - en Samfylkingin og Píratar einu þingsæti færra.

„Það er augljóst að kerfið ræður ekki við það að jafna eftir flokkum þannig að flokkarnir fái þingmenn í samræmi við fylgi sitt í landinu. Það hefur reyndar verið ljóst í mörg ár að þetta getur gerst. Þetta gerðist í rauninni í kosningunum 2013, 2016 og 2017,“ segir Ólafur. Þá hafi ýmist Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn fengið einu þingsæti fleira en atkvæðahlutfallið sagði til um. Áður hafði skipting þingsæta verið rétt í öllum kosningum 1987 til 2009 eftir að kosningalögum var breytt til að koma í veg fyrir misræmi milli atkvæða og þingsæta. Jöfnunarsætin voru þrettán á þessu tímabili en aðeins níu eftir breytingu sem tók gildi í kosningum 2003. Eftir að flokkum fjölgaði og þingsæti færðust úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi fór að bera á ósamræmi milli atkvæðaskiptingar og dreifingar þingsæta.

Getur ráðið miklu um stjórnarmyndun

Skiptist þingsætin ranglega milli flokka getur það haft áhrif á það hvaða ríkisstjórn er hægt að mynda eftir kosningar. Ef naumt er á munum getur það jafnvel ráðið því hvort sitjandi ríkisstjórn stendur eða fellur, líkt og í könnun MMR fyrir Morgunblaðið, segir Ólafur. „Með þeim úrslitum hefðu stjórnarflokkarnir fengið 33 þingmenn. Ef hins vegar rétt hefði verið skipt þá hefði stjórnin fengið 31 þingmann og verið fallin.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sæti ráðherra á Alþingi.

Kosningalögum breytt en gallinn ekki lagaður

„Það hefur verið ljóst síðan 2013 að það þarf að breyta kosningakerfinu, fjölga jöfnunarsætunum. Það er hægt að gera það án þess að breyta heildartölu þingmanna. Það hefur því miður ekki verið gert,“ segir Ólafur. „Það hefur orðið vart við vilja hjá stjórnarandstöðuþingmönnum til þess að breyta þessu og það komu fram tillögur á síðasta þingi en stjórnarflokkarnir felldu þær. Það hefur hins vegar enginn flokkur lýst því yfir að hann vilji að það sé þetta misvægi.“

Ólafur segir að ný allsherjar kosningalög sem voru samþykkt fyrir þinglok feli í sér miklar framfarir, allar kosningar hafi verið settar undir sama lagabálk og ýmis tæknileg atriði séu til mikilla bóta. Hins vegar hafi ekki verið hreyft við fjölda jöfnunarsæta. 

Árið 1999 var kjördæmakerfinu breytt með stjórnarskrárbreytingu. Þá var fjöldi jöfnunarsæta tekinn úr stjórnarskrá svo hægt væri að ákveða fjölda þeirra án stjórnarskrárbreytingar. Eftir það þarf ekki lengur að breyta stjórnarskrá, með samþykkti tveggja þinga og kosningum á milli, til að tryggja jafnvægi milli atkvæða og þingsæta heldur má gera það með einfaldri lagabreytingu. 

„Þess vegna verður eiginlega enn óskiljanlegra af hverju meirihlutinn á þingi hefur ekki viljað gera þessar einföldu leiðréttingar til að ná fram réttlæti sem allir segjast vera sammála um,“ segir Ólafur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV