Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Forsetinn vill huga betur að lýðheilsu og geðheilsu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það er víðtækri bólusetningu að þakka að fáir hafa veikst alvarlega enn sem komið er í síðustu bylgju covid, segir Guðni Th. Jóhannesson forseti. Þetta segir Guðni í pistli sem hann skrifar í tilefni þess að fimm ár eru liðin frá því hann tók við embætti. Forsetinn segir nauðsynlegt fyrir Íslendinga að huga fyrr eða síðar rækilega að framtíð heilbrigðismála í heild sinni. Mest sé um vert að gera enn betur en nú í lýðheilsu, geðheilsu og forvirkum aðgerðum á þeim sviðum.

Guðni fer um víðan völl í pistli sínum. Hann segir vel hafa tekist til við að verjast COVID-19 þótt alltaf megi benda á mistök og aðrar leiðir. Bólusetningar hafa skipt miklu máli, segir forsetinn og lýsir þeim sem öflugu tákni um mátt rannsókna, vísinda og þekkingar. Í pistlinum fjallar hann einnig um muninn á heilbrigðri ættjarðarást og þjóðrembu, komandi kosningar og stjórnarmyndun og það að fólk hugi vel að sjálfu sér.

Vill gera betur í heilbrigðismálum

„Að sjálfsögðu verður ætíð nauðsynlegt að bregðast við sjúkdómum og suma þeirra er ekki hægt að forðast en aukin áhersla á heilsusamlegt líferni í samfélaginu mun alltaf skila árangri,“ skrifar Guðni þegar hann hvetur til þess að hugað verði betur að lýðheilsu, geðheilsu og forvörnum. „Hér þarf ekki boð, bönn og vandlætingu heldur jákvæð skilaboð og hvatningu. Líði fólki vel á sál og líkama er það mun líklegra til að geta tekist á við alls kyns áskoranir okkar daga og framtíðar.“ Guðni segir margsannað að forvirkar aðgerðir á sviði lýðheilsu og geðheilsu spari ríki og sveitarfélögum stórfé, þannig verði framlög á þessum vettvangi til þess að minna fé þurfi í aðra útgjaldaliði í heilbrigðiskerfinu.

Þriðju þingkosningarnar á fimm ára forsetaferli

Kosningar til Alþingis í haust verða þær þriðju frá því Guðni tók við embætti forseta fyrir fimm árum. Það er tími frambjóðenda og kjósenda til að ræða og takast á um stefnur og strauma, segir hann. „Öll þessi skoðanaskipti ættu að vera hvöss ef þurfa þykir en þó málefnaleg. Á því getur verið misbrestur,“ segir Guðni. Hann segir að fyrir komi að hann eigi bágt með að skilja hvað fái fólk til að bjóða sig fram til áberandi ábyrgðarstarfa. „Netið og samfélagsmiðlar eru frábær lýðræðisbylting, opinn vettvangur allra. En því miður er hætt við að þar sé vegið úr launsátri, svívirðingum ausið í skjóli nafnleyndar, auglýsingar birtar án ábyrgðarmanns. Við eigum ekki að láta þannig framferði átölulaust. Vissulega þarf fólk að þola gagnrýni en öllu má ofgera.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - RÚV

Stjórnarmyndunarumboð ekki verðlaun

Eftir þingkosningarnar í október 2016 tók við langt og erfitt tímabil stjórnarmyndunar og tók ný ríkisstjórn ekki við fyrr en komið var fram á nýtt ár. Hún sprakk nokkru síðar, kosið var á ný um haustið og ný ríkisstjórn mynduð rúmlega tveimur mánuðum síðar. 

Guðni fer yfir stjórnarmyndunarferlið í pistli sínum, þar sem forystumenn stjórnmálaflokkanna sem sitja á Alþingi eigi að skipa landinu starfhæfa stjórn. „Þegar ræða þarf myndun nýrrar ríkisstjórnar, yfirleitt eftir kosningar, veitir forseti þeim stjórnmálaleiðtoga umboð til stjórnarmyndunar sem má teljast líklegastur til að geta leitt það verk og svo öðrum ef nauðsyn krefur. Stjórnarmyndunarumboð er því ekki einhvers konar verðlaun eða viðurkenning fyrir góðan árangur í alþingiskosningum.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV