Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég tek kannski svona rúm með mér heim“

Mynd: EPA / EPA

„Ég tek kannski svona rúm með mér heim“

01.08.2021 - 07:59
Það hefur mikið verið rætt um rúmin sem keppendur, þjálfarar og fylgdarlið þeirra eru látin sofa á í Ólympíuþorpinu í Tókýó. Rúmin eru heldur ekkert venjuleg, því Japanir ákváðu að útbúa rúm úr pappakössum fyrir sína gesti á þessum Ólympíuleikum. Við spurðum Íslendingana í Ólympíuþorpinu hvernig sé að sofa á þessum framúrstefnulegu og umhverfisvænu rúmum.

„Pappinn er bara alveg nokkuð traustur fyrir þunga menn. Ég veit að Guðni [Valur Guðnason] er með einhver leyndarmál sem hann segir ykkur frá. En þetta er bara allt í lagi,“ sagði Pétur Guðmundsson kastþjálfari.

„Þau eru sérstök, en góð hugmynd. Þau halda allavega,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein í handbolta.

Rúmin fín en engin þægindi í Ólympíuþorpinu

„Þau eru bara allt í lagi. Svolítið skrítið að sofa í svona rúmi. En samt bara mjög fínt,“ sagði sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir.

„Þau eru býsna góð. Ekkert þannig lagað svo slæmt. En þetta er bara eins og er alltaf í þorpunum að það er nú ekki beinlínis þægindi og allt mjög þröngt,“ sagði Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta.

Dýnan er aðal málið

„Þetta er ekkert mál. Þetta er fínt. Þetta er sniðug hugmynd. Það er bara dýnan sem er aðal málið og hún er fín,“ sagði Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handbolta.

„Maður getur snúið dýnunni við og valið hvort maður sofi á mjúkri eða harðri dýnu. Ég er búinn að sofa á þessum harða hluta fram að þessu. Maður sefur alveg, en það er meira kannski hvað er hljóðbært milli íbúða,“ sagði Aron Kristjánsson.

„Ég er sem betur fer með eigið herbergi. En það er að vísu ekki mikið stærra en fataskápur. Þetta er bara svoleiðis,“ sagði Alfreð Gíslason.

Guðni Valur fann ráð

„Andri [Stefánsson fararstjóri íslenska hópsins] kom sem betur fer með yfirdýnur. Þannig þetta er mikið betra en ég bjóst við,“ sagði sundmaðurinn Anton Sveinn McKee.

„Þau eru náttúrulega ógeðslega hörð. En það er trix sem fáir vita um held ég. Það er hægt að láta mæla sig. Þá fer maður í skanna og hæðin og þyngdin er sett inn og tekin mynd af manni að framan og á hlið. Það eru nefnilega þrír púðar í rúminu sem eru með mismunandi stífleika. Það er hægt að snúa þeim þá til að hafa mis stíft undir rass, fætur og axlir. Þannig þetta á að vera hrikalega gott fyrir bakið og svona. Þetta er alveg fínt, en er hart. Þetta breytir smá, en ég steinsef á þessu. Mér finnst þetta allt í lagi,“ sagði kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason.

Einföld og góð lausn

„Þau eru bara fín. Ég svaf vel í nótt. Þau eru grjóthörð og mér líkar það vel. Bara einfalt og mjög sniðugt í sjálfu sér. Ódýr lausn,“ sagði kastþjálfarinn Vésteinn Hafsteinsson.

„Ég tek kannski svona rúm með mér heim bara,“ sagði Guðni Valur svo og hló. Sjá má innslagið í spilaranum hér efst í fréttinni.