Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brekkusöngur Þjóðhátíðar án Þjóðhátíðar

01.08.2021 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Brekkusöngur á Þjóðhátíð í Eyjum fer fram í kvöld þótt engin sé Þjóðhátíðin. Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar, segir að mikið tap sé vegna frestunar Þjóðhátíðar en hefur trú á að margir horfi á brekkusönginn og aðra dagskrárliði sunnudagskvöldsins í streymi.

Undirbúningur Þjóðhátíðar þetta árið hefur verið óvenjulegur. „Það var mjög sérstakt. Undirbúningur var langt kominn eins og við sjáum hérna fyrir aftan okkur. Þetta er æði sérstakt og maður er eiginlega bara sorgmæddur,“ segir Hörður Orri.

Brekkusöngurinn og fleiri tónlistaratriði voru á dagskrá Þjóðhátíðar í kvöld og eru enn þrátt fyrir að engin sé Þjóðhátíð. Dagskráin er send út í streymi og segir Hörður að vel gangi að selja aðgang að útsendingunni.

Fólk sem á miða á Þjóðhátíð getur, líkt og í fyrra, valið milli þriggja kosta: að fá miðann endurgreiddann, eiga miðann inni á næstu Þjóðhátíð eða styrkja ÍBV.  „Auðvitað er best fyrir félagið ef fólk styrkir ÍBV. Margir voru að flytja miðana. Það er líka gott ef þú vilt tryggja þér miða á næstu hátíð, hvenær sem hún verður.“

Hörður segir að ÍBV tapi miklu fé á því að hátíðin frestist en vill ekki segja hve miklu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV