Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Annie Mist í þriðja sæti á Heimsleikunum í Crossfit

Mynd með færslu
 Mynd: Síða Crossfit Games - RÚV

Annie Mist í þriðja sæti á Heimsleikunum í Crossfit

01.08.2021 - 20:09
Annie Mist Þórisdóttir endaði í þriðja sæti á Heimsleikunum í Crossfit eftir frábæra frammistöðu á síðustu tveimur dögum leikanna. Þá hafnaði Björgvin Karl Guðmundsson í fjórða sæti í karlaflokki.

Leikarnir hafa staðið yfir síðan á miðvikudag en Annie Mist komst upp í þriðja sætið fyrir lokagreinina með sigri í þeirri næst síðustu þar sem hún kom lang fyrst í mark, ellefu sekúndum á undan næstu konu, hinni norsku Kristin Holte. Í lokagreininni kláraði hún svo þriðja og lauk því keppni í þriðja sætinu en Anníe Mist var ekki með á heimsleikunum í fyrra þar sem hún eignaðist dóttur um það leyti.

Tia Clair-Toomey sem hefur unnið síðustu fjögur ár vann með yfirburðum, rúmum 300 stigum fyrir ofan Laura Horváth sem varð önnur. Katrín Tanja Davíðsdóttir hafnaði í 10. sæti á leikunum í ár og Þuríður Erla Helgadóttir því þrettánda.

Björgvin Karl lauk keppni í fjórða sæti en hann sigraði fyrstu grein dagsins og átti möguleika á að komast upp í þriðja sætið í lokagreininni. Sigurvegarinn í karlaflokki var Bandaríkjamaðurinn Justin Medeiros en Patrick Wellner varð annar og Brent Fikowski þriðji, en báðir eru þeir frá Kanada.