Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um 200%

31.07.2021 - 19:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um 200 prósent í Pakistan eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Talið er að hið minnsta þúsund konur verði á ári hverju fórnarlömb svokallaðra heiðursmorða þar í landi.

Noor Mukadam er víða minnst í Pakistan þessa dagana. Æskuvinur hennar hefur verið ákærður fyrir að myrða hina 27 ára Mukadam á svo hræðilegan hátt að það verður ekki tíundað hér. Dauði hennar beinir hins vegar kastljósinu að ofbeldi gegn konum í Pakistan.  

„Það er eitthvað sem er á yfirborðinu, augljóst og starir í andlit manns. Faraldur kynferðislegra glæpa og ofbeldis gegn konum í Pakistan er þögull faraldur. Enginn sér hann, enginn talar um hann,“ segir baráttukonan Tahira Abdullah. 

Pakistan er fimmta fjölmennasta ríki heims, en þar búa um 220 milljónir.

Landið er í þriðja neðsta sæti 156 landa á lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mæla jafnrétti kynjanna. Talið er að hið minnsta þúsund konur séu á ári hverju fórnarlömb svokallaðra heiðursmorða þar í landi.

Mannréttindavaktin segir innhringingum í hjálparsíma vegna heimilisofbeldis hafa aukist um 200% í Pakistan eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Stjórnvöld eru þó ekki á því að vandamálið sé jafn alvarlegt. 

„Ég held að þessi skilningur fari ekki nærri veruleikanum, að konur í Pakistan séu ekki óhultar eða að kvenhatur sé landlægt í Pakistan,“ segir Fawad Chaudhry, ráðherra upplýsingamála í Pakistan. 

Fyrr í þessum mánuði felldi pakistanska þingið lagabreytingu sem átti að auka réttindi kvenna sem verða fyrir ofbeldi á heimilum sínum. Í staðinn ákváðu stjórnvöld að leita ráða hjá trúarlegri ráðgjafarnefnd, nefnd sem áður hefur ályktað að það sé í lagi að eiginmenn berji konuna sína. 

„Og nú hentar það ágætlega fyrir bandaríska fjölmiðla og yfirvöld þar að kenna Pakistan um allt eftir að hafa farið úr heimshlutanum,“ segir ráðherrann Chaudhry.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV