Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast að metið verði slegið aftur eftir helgi

31.07.2021 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Búist er við að met í fjölda covid-smita verði slegið í næstu viku og að álag á heilbrigðiskerfið aukist, en aldrei hafa fleiri smit greinst og í gær. Varðstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins býst við miklum fjölda covid-tengdra sjúkraflutninga á næstunni. 

145 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Stærsti hlutinn var utan sóttkvíar við greiningu. Ríflega tólf hundruð eru í einangrun með sjúkdóminn og tíu á spítala. Tveir eru á gjörgæslu.

Smitrakningarteymi hefur vart undan

Langar raðir mynduðust í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu í dag, þrátt fyrir að það sé helgi. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir að búist sé við að greindum smitum fjölgi enn eftir verslunarmannahelgi. Hún segir að smitrakningarteymi hafi vart undan við að rekja smit og hringja í útsetta, og biðlar til fólks að fara í sjálfskipaða sóttkví, telji að sig hafa verið útsett fyrir smiti. „Ekki bíða eftir að fá símtal frá rakningarteyminu ef þú umgekkst náið einhvern smitaðan,“ segir Hjördís.

Óttast er að um miðja næstu viku sjáum við enn fram á nýjan metfjölda smita, auk þess sem álag á heilbrigðiskerfið gæti aukist verulega, en þeir sem fá alvarleg einkenni verða oftast veikir um tíu dögum eftir smit. 

Stundum yfir 50 útköll á dag

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur farið í allt að á sjötta tug covid-tengdra flutninga á dag undanfarna viku. Rúnar Helgason, varðstjóri hjá Slökkviliðinu segir að þeir sem þurfa flutning séu allt frá einkennalausu upp í mikið veikt fólk. „Meirihlutinn er með lítil eða jafnvel engin einkenni, sem hafa þá endastað í sóttvarnarhótelum og svo kemur alltaf eitt og eitt sem við þurfum að flytja á sjúkrahús, á bráðmóttökuna, sem eru þá það mikið veik,“ segir Rúnar.

Slökkviliðið hefur fengið lánaða bifreið frá brunavörnum Árnessýslu til að auka afköstin og vera viðbúið auknu álagi næstu viku. „Reynslan hefur sýnt okkur að flutningarnir hjá okkur á svona veiku fólki ná hæstu hæðum svona einni til tveimur, jafnvel þremur vikum eftir að þessar bólur byrja,“ segir Rúnar.