Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nærri hundrað eldingar á tveimur og hálfri klukkustund

31.07.2021 - 11:47
Mynd: RÚV / RÚV
Talsvert eldingaveður gerði í uppsveitum Suðurlands í gær og stóð það yfir í um tvær og hálfa klukkustund.

Að sögn Ingibjargar Jóhannsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, bárust fyrstu tilkynningarnar um eldingar frá svæðinu norðan við Laugarvatn og í framhaldinu allt austur að Sultartangavirkjun, sem er um 60 kílómetrum austar.

Alls laust 96 eldingum niður meðan á veðrinu stóð. Ekki er vitað til þess að tjón hafi orðið af völdum eldinganna en eitthvað var um að rafmagn slægi út af völdum þeirra.

Þegar veðrið stóð sem hæst afréð baðstaðurinn Laugarvatn Fontana að kalla gesti sína upp úr vatninu til öryggis, í kjölfar þess að hafa fengið þær upplýsingar hjá Veðurstofu að útlit væri á þeim tímapunkti fyrir áframhaldandi þrumuveður með tilheyrandi eldingum.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá sjónarspil eldinga sem leiftruðu um sveitirnar, séð ofan af Búrfelli.