Léttir að leggja frá sér hraunmola á Fyrirgefningarhæð

Mynd: Ása Marin / Aðsend

Léttir að leggja frá sér hraunmola á Fyrirgefningarhæð

31.07.2021 - 09:00

Höfundar

„Þú þarft að virða söguna og tenginguna sem fólk hefur við stíginn. Margir ganga þetta og gráta því þeir eru að fara í gegnum innra ferðalag á meðan þeir ganga,“ segir Ása Marin rithöfundur. Hún gekk Jakobsveginn og byggði svo bók á þekkingu sinni eftir magnað ferðalag.

Ása Marin sem er ferðagarpur, leiðsögukona og rithöfundur hefur ferðast um víðan völl og skrifað bækur sem hún staðsetur á framandi stöðum sem hún hefur ferðast til. Vegur vindsins er segir frá göngu um Jakobsstíginn, sem hún hefur sjálf farið, og hún hefur einnig sent frá sér bókina Yfir hálfan hnöttinn sem er skálduð ferðasaga frá Víetnam. Ferðaáhuginn segir hún að hafi smitast frá móður hennar. „Hún var óttalegur farfugl í eðli sínu og var varla lent í Keflavík þegar hún hafði bókað næstu ferð út,“ segir Ása í samtali við Sumarmál á Rás 1. Þegar hún var fimm ára fóru foreldrar hennar með hana og systur hennar í fyrstu utanlandsferðina til Spánar. Síðan hefur Andalúsía á Spáni verið hennar annað heimili og bjó hún þar og lærði spænsku um hríð eftir stúdentspróf.

Mynd með færslu
 Mynd: Ása Marin - Aðsend
Ása við rauðvínsbrunn á Jakobsveginum

Þroskandi að ferðast einn

Jakobsveginn gekk hún 2013 og 2014. Fyrst fór hún í hópi nokkurra kvenna sem fóru og prófuðu stíginn, sem er í heild sinni tæpir átta hundruð kílómetrar. „Maður þarf að hafa prófað hann áður en maður fjárfestir tíma í að ganga hann allan,“ segir Ása. „Þá gengum við fyrstu fimm daga leiðarinnar en fórum svo bara til Tenerife á sólarströnd, tókum reyndar stopp í San Sebastian og enduðum svo á Tenerife nokkrar í hópnum.“

Ári síðar fór hún aftur og gekk restina, en sú ganga tók rúmar þrjár vikur, stóran hluta ferðarinnar alveg ein. „Það er frábært að hafa félagsskap en líka mjög þroskandi að fara einn því þá ertu útsettari fyrir að fólk tali við þig, aðrir pílagrímar,“ segir Ása. Aðra hverja nótt gisti hún í sæluhúsum en hina nóttina á hótelum. „Það var bæði upp á sparnað, að vera ekki ein á hóteli eða gistiheimili, en líka til að kynnast fólki því þegar þú gistir í sæluhúsi þá borðið þið jafnvel saman og þú átt meiri samskipti við fólkið sem þú gistir með.“

Síðustu hundrað kílómetrarnir eins og skrúðganga

Leiðin lá frá Norður-Spáni, á landamærum Spánar og Frakklands, og Ása gekk í september. Hún segir haustið hentugt fyrir ferðir sem þessar því þá er aðeins svalara en á sumrin. Síðustu hundrað kílómetrana gengu svo margir að Ása lýsir þvögunni nánast sem skrúðgöngu. „Það var rosalega fjölmenn ganga.“

Margir göngugarpar fara í gönguna með það að markmiði að fá aflátsbréf frá kirkjunni, sem hægt er að hljóta eftir að gengnir hafa verið hundrað kílómetrar. „Þú safnar stimplum til sönnunar á að þú sért að ganga,“ segir Ása. „Þú reddar þér vegabréfi í upphafi ferðar og þar er skráð hvar þú ferð. Þú þarft að safna tveimur stimplum á dag. Þú færð stimpla á veitingastöðum, gistiheimilum, kirkjum og víðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ása Marin - Aðsend
Ása með vinkonu sem hún kynntist í Víetnam

Maður verður að vera umburðalyndur

Það ganga því margir veginn af trúarlegum ástæðum. „Stundum var ég pínu eins og fíll í hafi eða einhver túristi. Ég er ekki kaþólsk og ekki mjög trúuð og fannst ég stundum vera á fölskum forsendum að ganga stíginn, þegar umræðan við matarborðið var um páfann.“ En hún tók þátt í samræðunum og bar virðingu fyrir öðrum ferðalöngum, hver sem ástæða göngunnar var. „Maður verður að vera umburðarlyndur. Það þýðir ekki að vera einhver hrokafullur heiðingi að ganga Jakobsveginn því hann er ekki útbúinn sem einhver túristaleið,“ segir hún. „Þú þarft að virða söguna og tenginguna sem fólk hefur við stíginn. Margir ganga þetta og gráta því þeir eru að fara í gegnum innra ferðalag á meðan þeir ganga.“

Lagði frá sér hraunmolann og fann fyrir létti

Það eru tveir staðir sem eru helgistaðir á leiðinni. Önnur er Fyrirgefningahæðin en hugsunin á bak við hana er að á meðan þú gengur upp hæðina eigirðu að íhuga hverjum þurfi að fyrirgefa í lífinu til að geta haldið áfram, og hvern maður þarf sjálfur að biðja fyrirgefningar. Hinn helgistaðurinn er Járnkrossinn og þangað er mælt með að fólk taki með sér stein frá heimalandinu. „Ég tók með mér hraunmola frá Íslandi og svo hafði ég miklar áhyggjur þegar ég sagði einu sinni frá þessu í viðtali að það mætti ekki taka hraun úr landi,“ segir hún og hlær. Hraunmolinn var hentugur því hann er léttur, en markmiðið er að ganga með steininn á sér og skilja hann svo eftir á þessum helga stað. „Þá ertu að leggja frá þér byrðar í lífinu.“ Ása fann til léttis þegar hún lagði frá sér steininn.

Þeir sem ganga berfættir líta niður á hina

Áður en Ása lagði af stað hafði hún kortlagt gististaði fyrir hvert kvöld og hún gekk ekki með allan farangurinn heldur lét keyra töskuna sína á nýjan gististað dag hvern. „Ég var það sem er kallað lúxuspílagrímur,“ segir Ása.

Það voru hins vegar ekki allir lúxuspílagrímar. „Það er fyndin stéttaskipting á stígnum, þeir sem ganga með farangurinn sinn líta niður á okkur sem erum með dagpokana, og þeir sem ganga berfættir líta niður á okkur öll hin,“ segir Ása og hlær. „Þetta snýst um að þjást. Ég borðaði góðan mat, var bara með mittistösku með því sem ég þurfti á milli bæja. Ég var í mínum lúxus.“

Lýgur ekki um veitingastaði sem selja kolkrabba

Þegar Ása skrifaði Veg vindsins nýtti hún þekkingu sínum á stígnum inn í söguna, þótt sagan sé ekki hennar eigin. „Þegar ég var búin að ganga fyrstu dagleiðina ákvað ég að skrifa sögu sem átti að gerast á stígnum.“ Og fyrir forvitna ferðalanga er hægt að reiða sig á lýsingarnar í bókinni að miklu leyti. „Ef það stendur í bókinni að það sé veitingahús sem selur kolkrabba þá er veitingastaður sem selur kolkrabba í þessum bæ.“

Nýjasta bók hennar sem nefnist Yfir hálfan hnöttinn gerist í Víetnam og byggir á þekkingu Ásu eftir að vera ferðamaður þar 2018. Hún segir að landið sé framandi „en heimamenn eru vingjarnlegir. Maturinn er rosalega góður og ég sjálf elska að ferðast til landa þar sem þú færð góðan mat og fólk vill að þú sért gestur í landinu þeirra,“ segir Ása. „Víetnam uppfyllti þessi skilyrði og gott betur.“

Ása á pantað flug til Andalúsíu í september en áttar sig á að ekki sé víst að hún komist sökum heimsfaraldurs. „En hugmyndin var að taka bílaleigubíl og keyra um litlu bæina og enda í Malaga sem er borgin mín á Spáni,“ segir hún.

Rætt var við Ásu Marin Hafsteinsdóttur í Sumarmáli á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“