Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Guð minn almáttugur hvað ég er ánægður“

Mynd: RÚV / RÚV

„Guð minn almáttugur hvað ég er ánægður“

31.07.2021 - 15:01
„Ég er svo ánægður með þetta að ég veit ekki hvað ég á að segja ég er bara alveg hrærður yfir þessu öllu saman,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson klökkur eftir að Daniel Ståhl og Simon Pettersson, sem hann þjálfar, röðuðu sér í efstu tvö sætin í kringlukasti karla á Ólympíuleikunum í dag.

Heimsmeistarinn Daniel Ståhl tók gullið þegar hann kastaði 68,90 metra, og Simon Pettersson tók silfrið með kasti upp á 67,39 metra. Þetta eru fyrstu Ólympíuverðlaun beggja. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson hitti Véstein eftir að úrslitin réðust í Tókýó og spurði um upplifunina af kvöldinu. „Ég verð bara að segja að það tók töluvert á kraftana en Guð minn almáttugur hvað ég er ánægður,“ segir Vésteinn.

„Ég kom hingað með eitt takmark, að Daniel Ståhl myndi vinna þetta vegna þess að hann er bestur í heimi síðustu þrjú árin og hann er heimsmeistari og hann á að vinna þetta en það er ekki auðvelt að koma með þá pressu hingað. Þetta er strákur sem ég er búinn að vinna með í tíu ár og hann kemur hingað og það er ekkert gildir fyrir hann annað en að vinna gull,“ segir Vésteinn.

Ekki hafi verið eins mikil pressa á Pettersson. „En að Simon Petersson sé númer tvö annar á eftir Daniel er algerlega ótrúlegt í mínum huga að þeir vinni þetta, þetta er alveg toppurinn á ferlinum það er ekkert sem toppar þetta og ég bara trúi þessu varla. Alveg með ólíkindum.“

Líður þér eins og þú sért í draumi?
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þetta myndi ske. Simon er framtíðarmaður og eins og ég sagði um daginn þá græddu Fanny Roos og Simon Pettersson á því að Ólympíuleikarnir voru ekki í fyrra, hann hefði ekki getað gert þetta í fyrra. Þau eru orðin ári eldri, að hann geri þetta hann er ótrúlegur keppnismaður og alla tíð verið það,“ segir hann.

„Ég er svo ánægður með þetta að ég veit ekki hvað ég á að segja ég er bara alveg hrærður yfir þessu öllu saman,“ segir Vésteinn klökkur.

„Ég held ég verði að hætta núna, setja tærnar upp í loft“

Vésteinn hefur þjálfað menn áður til verðlauna, en þetta segir hann sérstakt.
„Að taka þetta tvöfalt. Þetta er að vinna Ólympíuleika með þessum árangri líka, það hefur enginn kastað yfir sjötíu metra á Ólympíuleikum, hann er að kasta sitt næst lengsta kast á ferlinum Daniel og Simon er að fara þrjá metra upp frá síðasta Evrópumeistaramótinu 2018 og er að vinna þessa stráka, þetta er toppmót.“

„Ég held ég verði að hætta núna, setja tærnar upp í loft og njóta það sem eftir er, ég held ég eigi erfitt með að toppa þetta,“ segir Vésteinn.

En þú ert samt ekki hættur?
„Nei, nei þetta er góð vinna, þetta er ofboðslega gaman og íþróttir eru skemmtilegar. Ég hef ofboðslega gaman að þessu, ég er er alveg jafn klár í slaginn eins og áður þó ég sé orðinn sextugur og mér finnst bara rosalega gaman að fá að upplifa þetta allt, ég er á mínúm tíundu Ólympíuleikum og er að fá aðra gullmedalíuna í kringlukasti sem er mín uppáhalds íþróttagrein og ég get ekkert toppað það meira en það er ótrúlegt að fá að upplifa þetta.“

„Ég er bara ofsalega þakklátur þeim sem hafa stutt mig í gegnum árin og svo vil ég bara segja hæ til Íslands og þakka fyrir stuðninginn,“ sagði Vésteinn að lokum.

Viðtalið við Véstein má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Lærisveinar Vésteins náðu í Ólympíugull og silfur