Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Andlátum vegna ópíóðafíknar fjölgar ekki hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Dauðsföllum vegna ópíóðafíknar hefur ekki fjölgað vegna lyfjaeitrunar þrátt fyrir aukna neyslu. Fleiri voru lögð inn á Vog vegna ópíóðafíknar á síðasta ári en árin þar á undan. Yfirlæknir á Vogi telur að þakka megi meðferð og velferðarkerfi að andlátin séu ekki fleiri hér.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag sem hefur eftir Valgerði Rúnarsdóttur yfirlækni á Vogi að meiri líkur séu á andláti af völdum ofskammta slíkra lyfja en nokkurra annarra.

Hún segir góðar fréttir að andlátum fjölgi ekki hér, en það hefur gerst til dæmis í Bandaríkjunum og Skotlandi. Hún segir að hættulegust séu lyfin sé þeim sprautað í æð.

Á síðasta ári létust 37 af allri lyfjaeitrun hér á landi en meðaltal síðustu fimm ára er rúmlega 32 dauðsföll. Gott aðgengi að meðferð og velferðarkerfinu segir Valgerður geta skýrt að andlátin séu ekki fleiri hér á landi en raun ber vitni.