Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldrei fleiri smit innanlands

31.07.2021 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Magnús Geir Eyjólfsson
145 covid-smit greindust innanlands í gær. Þau hafa aldrei verið fleiri hérlendis í faraldrinum. Jafnframt hefur sýnum frá fimmtudegi þar sem covid-smit greinist fjölgað úr 112 í 124. Enn er verið að greina sýni og því gætu tölur dagsins hækkað eftir uppfærslu á morgun.

Yfir hundrað smit hafa greinst á dag fimm daga í röð. Áður hafði það aðeins tvisvar gerst frá upphafi faraldurs að hundrað eða fleiri greindust með covid-smit á sama sólarhringnum hérlendis. 

Þeim sem eru í einangrun hefur fjölgað úr 1.072 í 1.213 milli daga. Fólki í sóttkví hefur hins vegar fækkað úr 2.590 í 2.429.

98 af þeim 145 sem greindust með covid í gær voru utan sóttkvíar, eða tveir þriðju. 38 smitaðra voru óbólusettir, fimm hálfbólusettir og 97 fullbólusettir.

Nýgengi innanlandssmita hækkar hratt. Það var 280,6 í gær en er nú komið í 319,9. Nýgengið fer hins vegar lækkandi á landamærunum, úr 10,4 í 7,9. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær að nýgengi innanlands gæti orðið það hæsta hérlendis um helgina ef áfram greinast yfir hundrað daglega.