Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja ólm losna úr einangrun en þurfa að vera þolinmóð

Mynd: RÚV / RÚV
Síminn stoppar ekki hjá covid-göngudeildinni vegna fólks sem vill losna úr einangrun fyrir verslunarmannahelgina. Einangrunartími smitaðra var styttur í dag, að því gefnu að fólk sé einkennalaust og bólusett. Yfirlæknir biður fólk að sýna þolinmæði.

Seinnipartinn í dag bárust fregnir frá sóttvarnayfirvöldum að ákveðið hefði verið að stytta þann tíma sem fólk sætir einangrun eftir smit um fjóra daga. Þetta er enn ein tilraunin í baráttunni við faraldurinn og eins og áður þarf einhver tími að líða áður en árangur getur mælst. 

Við erum með alla þjóðina meira og minna bólusetta og stórir hópar ungs fólks sem er með mjög lítil einkenni og í sumum tilvikum engin, þannig að það þótti rétt að skoða möguleikann á því að stytta einangrun niður í tíu daga eins og hefur verið gert sums staðar annars staðar, meðal annars í Bandaríkjunum.

Fólk verður að hafa verið alveg einkennalaust í þrjá daga til að geta losnað eftir tíu daga og verið einkennalítið nánast allan tímann. Runólfur segir allar línur nánast rauðglóandi núna seinnipartinn eftir að fregnirnar komu fram. 

Fólk er að hafa samband við göngudeildina og vill losna úr einangrun en við reynum okkar besta að hafa samband við fólk. En það þarf bara að bíða og sýna þolinmæði þangað til það fær útskriftarsímtal því við þurfum að meta hvert einstakt tilfelli eftir sem áður.

Sólin skín og ríkið fer að loka

„Fólk er óneitanlega orðið óþreyjufullt að losna. Ég meina, það er föstudagur fyrir verslunarmannahelgi. Sólin skín. Og ríkið fer að loka. En þessi stytting á eingöngu við þá sem eru hraustir, bólusettir og hafa ekki verið að sýna einkenni á meðan á einangruninni stendur,” segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna.

Við verðum að treysta fólki. Það er þeim sjálfum fyrir bestu að þau ljúgi sig ekki úr einangruninni því þeim getur slegið hratt niður.

Þau sem losna eftir tíu daga þurfa að passa sig vel í tvær vikur. Gylfi vonast til að fá enn eitt hótelið til afnota um helgina þar sem hin þrjú eru að fyllast. 

Þá fáum við 80 herbergi. Miðað við það ætti það að duga okkur fram á mánudag. Og við vonum að svo verði.