Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Uggur vegna framkomu við erlenda fréttamenn í Kína

30.07.2021 - 04:48
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - Pixabay
Bandarísk stjórnvöld lýsa þungum áhyggjum vegna árása og hótana í garð erlendra fréttamanna sem fylgst hafa með miklum og mannskæðum flóðum í Kína. Fréttaveitur og samtök fréttamanna eru sama sinnis.

AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir Ned Price talsmanni utanríkisráðuneytisins. Sólarhring áður en yfirlýsing ráðuneytisins var gefin út sökuðu kínversk stjórnvöld breska ríkisútvarpið BBC um að flytja falsfréttir af flóðunum miklu í Henan-héraði.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins kallaði breska miðilinn falsfréttastöð sem réðist að og sverti Kína. Þannig viki BBC frá öllum eðlilegum viðmiðum í fréttamennsku.

BBC sagði fréttamenn þess hafa fundið fyrir fjandskap í sinn garð, meðal annars á netinu en ekki síður í raunheimum sem skapaði mikla og raunverulega hættu fyrir þá.

Fréttamenn AFP segja reiðan hóp fólks hafa neytt þá til að eyða myndefni af flóðunum sem tekið var upp í borginni Zhengzhou. Price sagði ekkert að marka yfirlýsingar Kínastjórnar um að hún fagnaði og styddi við störf erlendra fréttamanna í landinu.

Hópar sem berjast fyrir frelsi fjölmiðla segja mjög þrengt að starfsemi fréttamanna í Kína, þeim sé veitt eftirför á götum úti, þeir áreittir á Netinu og meinað um vegabréfsáritanir til landsins.